• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Dec

Elkem náði ekki samningum við Landsvirkjun um umframorku - dregur úr framleiðslu!

Nokkrir starfsmenn Elkem Ísland hafa haft samband við formann félagsins og lýst þungum áhyggjum af atvinnuöryggi sínu en öllum starfsmönnum Elkem Ísland var sent bréf frá forstjóra fyrirtækisins. Í bréfinu stóð meðal annars eftirfarandi orðrétt:

„Ofnrekstur hefur almennt gengið vel hjá okkur í ár og endurspeglar sá árangur frábæra samvinnu og liðsheild. Að því tilefni var ljóst að fyrirtækið myndi þurfa að nota meiri orku en skilgreint er í núverandi samningi á milli Elkem og Landsvirkjunar. Til að geta haldið áfram á sömu braut óskaði Elkem eftir því að kaupa viðbótar orku af Landsvirkjun. Því miður var það niðurstaðan að samningar náðust ekki þrátt fyrir góðan vilja. Af þeim ástæðum þurfum við því að lækka álag á ofnum það sem eftir lifir af desember...“

Hér er um grafalvarlegt mál að ræða enda atvinnuöryggi starfsmanna Elkem Ísland í húfi. Þó vissulega sé rétt að taka fram að í þessu tilfelli er einungis verið að tala um viðbótarorku þá er rétt að taka það fram að bæði Elkem Ísland og Norðurál eru með lausa raforkusamninga frá árinu 2019 og ljóst miðað við þessar staðreyndir að Landsvirkjun er að óska eftir þannig verðum á raforkunni að fyrirtækið treystir sér ekki til þess að ganga frá samningi. Þá má vera ljóst að framtíð stóriðjureksturs, ekki bara hjá Elkem Ísland heldur öðrum stóriðjufyrirtækjum, er stefnt í stórhættu.

Hvernig má það vera að Landsvirkjun sé ekki tilbúin til að semja við Elkem Ísland til dæmis núna um viðbótarraforku í ljósi þeirrar staðreyndar að sú orka er til í kerfinu enda liggur fyrir að staða miðlóna er mjög góð um þessar mundir og þessi orka er til staðar. Hvernig má það líka vera að Landsvirkjun sé tilbúin til að fórna milljónum ef ekki tugum milljóna á einum mánuði með því að útvega Elkem ekki þessa viðbótarorku? Vilja forsvarsmenn Landsvirkjunar frekar láta hana flæða til sjávar án þess að hún skapi fyrirtækinu jafnvel tugi milljóna í tekjur?

Það er alveg ljóst miðað við þessar fréttir að framtíð stóriðjunnar á Grundartanga, bæði Elkem og Norðuráls, er eins og áður sagði verulega ógnað vegna þeirrar verðlagsstefnu sem Landsvirkjun er með á orku hér á landi. Það er eins og forsvarsmenn Landsvirkjunar hafi ekki verið að fylgjast með því sem er að gerast í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Nægir að nefna í því samhengi að samkvæmt heimasíðu Landsvirkjunar kemur fram að verð á raforku er 43 dollarar fyrir megavattstund en í Skandinavíu er raforkan komin niður í rétt rúma 20 dollara fyrir hverja megavattstund þannig að  á Íslandi  er raforkuverðið 112% hærra heldur en það verð sem boðið er í Skandnavíu. Það er mikilvægt fyrir almenning að vita það að Elkem rekur fyrirtæki víða í Skandinavíu og því ljóst að ef samkeppnisskilyrði hér á landi eru að verða ívið lakari en gerist á hinum Norðurlöndunum og þá eru umtalsverðar líkur á að þessari starfsemi verði hætt hér á landi. Enda blasir það við hverjum vitibornum manni að ef móðurfélagið getur fengið raforku sem er 53% ódýrari en Landsvirkjun er nú að fara fram á þá velja menn slík rekstrarskilyrði. Þetta á einnig við um Norðurál en samningar hjá þeim eru einnig lausir 2019 og hefur formaður verulegar áhyggjur af atvinnuöryggi sinna félagsmanna.

Það er eins og forsvarsmenn Landsvirkjunar átti sig ekki á því að raforkuverð í heiminum hefur hríðfallið á undanförnum árum og misserum og því eru samkeppnisskilyrði hér á landi að verða mun bágbornari heldur en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Sem dæmi þá er raforkan eins og áður sagði 53% ódýrari í Skandinavíu heldur en verðlagsskrá Landsvirkjunar segir til um, um 28% lægri í Þýskalandi og 34% lægri í Kanada. Það er mikilvægt að menn átti sig á því að ef Landsvirkjun horfir ekki á þessar staðreyndir þá eru umtalsverðar líkur á því að þúsundir starfa í stóriðjum muni tapast á næstu árum.

Ástæða fyrir fallandi raforkuverði í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við er meðal annars að þjóðir heimsins eru að átta sig á mikilvægi endurnýtanlegrar orku í orkufrekum iðnaði og staðfestir loftlagsráðstefnan í París það svo ekki verður um villst enda byggist niðurstaðan af ráðstefnunni á því að horfið verði frá mengandi orkugjöfum eins og kolum, olíu og gasi og horft meira til vistvænni orkugjafa. Þetta er önnur af ástæðunum fyrir lækkandi raforkuverði, hin ástæðan er að hagvöxtur víða í heiminum hefur dregist saman sem hefur leitt til lækkunar á raforkuverði.

Það er gríðarlega mikilvægt að íslenskum fyrirtækjum séu sköpuð góð rekstrarskilyrði þannig að þau geti vaxið og dafnað, borgað virkilega góð laun og fjölgað störfum. En með þeirri stefnu sem nú er rekin í Landsvirkjun er ljóst að verið er að ógna lífsafkomu þúsunda Íslendinga og heilu byggðarlaganna og því er verðlagsstefna orkumála ekki orðið neitt einkamál forsvarsmanna Landsvirkjunar þegar lífsafkoma áðurnefndra hópa og byggðarlaga er í húfi.

Nýjasta dæmið er deilan sem hefur verið hjá Alcan í Straumsvík en formaður félagsins hefur áður sagt að hann telji meginrekstrarvanda Alcan liggja í raforkusamningi sem gerður var árið 2010 sem kveður á um að Alcan greiði um 500 dollara fyrir hvert brætt tonn á meðan eigendur Alcan í Straumsvík, Rio Tinto, eru með samning í Kanada í álbræðslu þar sem raforkuverðið er 350 dollarar fyrir hvert brætt tonn. Á þessu sést að samkeppnisskilyrði Alcan í Straumsvík miðað við álfyrirtæki í Kanada eru afar slæm og ljóst að hætta á lokun fyrirtækisins er raunveruleg. Hún allavega snýst ekki um kjör örfárra starfsmanna í mötuneyti, ræstingu og hliðgæslu eins og gefið hefur verið í skyn.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á íslensk stjórnvöld að fá hlutlausan, óháðan aðila til að skoða þessi mál er lúta að raforkuverði í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við því gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir þjóðarbúið í heild sinni svo ekki sé talað um okkur Akurnesinga sem byggjum okkar afkomu að stórum hluta upp á þeirri mikilvægu starfsemi sem fram fer á Grundartangasvæðinu. En rétt er að geta þess að útflutningstekjur stóriðjanna á Íslandi í dag nema tæpum 300 milljörðum og munar um minna. En nú er komið að ögurstundu því þessi tíðindi frá Elkem Ísland um að draga þurfi úr rekstri fyrirtækisins vegna þess að fyrirtækið nær ekki samningum við Landsvirkjun er fyrsti vegvísirinn að því sem koma skal og það er með ólíkindum að Landsvirkjun skuli vera tilbúin að horfa á eftir jafnvel tugum milljóna renna óbeislað til sjávar í stað þess að fá það sem tekjur inn í reikninga fyrirtækisins.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness trúir því ekki að forsvarsmenn Landsvirkjunar ætli meðvitað að fórna þúsundum starfa og slátra sínum stærsta viðskiptavini sem eru stóriðjurnar á Íslandi en þær eru 80% af öllum viðskiptum við Landsvirkjun.

Sú skefjalausa árás sem stóriðjan hefur þurft að þola, orð eins og að þeir fái raforkuna gefins, stenst ekki nokkra skoðun enda liggur fyrir að afkoma Landsvirkjunar hefur verið gríðarlega góð og sem dæmi hefur Landsvirkjun greitt niður um 100 milljarða af sínum skuldum og verður jafnvel orðin skuldlaus eftir 7-8 ár og það þrátt fyrir að hafa ráðist í dýrustu fjárfestingu Íslandssögunnar sem var bygging Kárahnjúkavirkjunar. Landsvirkjun er gullkálfur íslensku þjóðarinnar sem mun skila íslensku þjóðarbúi tugum milljarða í arðgreiðslur eftir örfá ár en það mun ekki gerast ef þeir ætla að slátra sínum stærsta viðskiptavini sem eru stóriðjurnar.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image