• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Dec

Verkalýðsfélag Akraness stendur í stórræðum í réttindabaráttu sinna félagsmanna

Það er óhætt að segja að það sé nóg að gera hjá Verkalýðsfélagi Akraness við að verja réttindi félagsmanna sinna. Nú þegar er félagið með eitt mál fyrir Félagsdómi vegna svokallaðs SALEK samkomulags. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá gerði Samband íslenskra sveitarfélaga þá skýlausu kröfu á Verkalýðsfélag Akraness að SALEK samkomulagið skyldi fylgja með sem fylgiskjal í kjarasamningi sem félaginu stóð til boða vegna starfsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað. Slíku hafnaði Verkalýðsfélag Akraness eðli málsins samkvæmt algjörlega enda liggur fyrir að SALEK samkomulagið er að mati félagsins gróf skerðing á frjálsum samningsrétti stéttarfélaga og því mikilvægt að fá úr því skorið fyrir Félagsdómi hvort röksemdir VLFA eigi við rök að styðjast. Að mati félagsins er ekki hægt að fara fram á að fylgiskjal fylgi með kjarasamningi sem er andstætt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem og 74. grein stjórnarskrárinnar en það er mat VLFA að samningsrétturinn sé einn af hornsteinum stéttarfélagsbaráttunnar á Íslandi. Með þessu samkomulagi er verið að taka og færa samningsréttinn meðal annars yfir til þjóðhagsráðs sem til stendur að setja á laggirnar og mun ákvarða hverjar hámarkslaunabreytingar í kjarasamningum mega vera á hverjum tíma fyrir sig og stéttarfélögunum á að vera skylt að semja innan þess svigrúms.

Verkalýðsfélag Akraness er einnig á leið með annað mál fyrir dómstóla en það er vegna túlkunar á ráðningarsamningi starfsmanns sem hefur starfað við vinnslu á hvalaafurðum í hvalstöðinni í Hvalfirði. Einnig snýst það mál um lágmarksbónus sem samið var um samhliða kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði til handa fiskvinnslufólki en slíkri greiðslu var ekki til að dreifa hjá starfsmönnum í hvalstöðinni á liðinni vertíð.

Einnig er félagið nú með til skoðunar mál er lýtur að túlkun á útreikningi á orlofs- og desemberuppbótum en eins og staðan er í dag eru yfirgnæfandi líkur á því að félagið muni fara með þann ágreining fyrir dómstóla. Það er stefna Verkalýðsfélags Akraness að verja réttindi og kjör sinna félagsmanna í hvívetna ef félagið hefur minnsta grun um að verið sé að hafa laun og réttindi af þeim. Það skiptir máli að vera í öflugu stéttarfélagi sem hefur burði til að ráðast í slíka réttindabaráttu því öll svona mál kosta mikla yfirlegu og fjármuni og því skiptir það miklu máli að félagið standi vel félagslega sem fjárhagslega til að ráðast í slíka réttindabaráttu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image