• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Dec

Félagið sendir út bréf til sjómanna

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness sendi öllum sjómönnum sem tilheyra deildinni bréf í dag vegna þeirrar grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu þeirra við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Eins og flestir vita þá er kjarasamningur sjómanna búinn að vera laus frá 1. janúar 2011 eða í rétt tæp 5 ár. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Sjómannasambands Íslands sem fer með samningsumboðið fyrir aðildarfélög sín hefur ekki tekist að ganga frá kjarasamningi til handa íslenskum sjómönnum en það hefur ekki tekist vegna ótrúlegrar óbilgirni útgerðarmanna.

Það liggur fyrir að útgerðarmenn hafa algjörlega hafnað lagfæringu varðandi fiskverð.  Sjómenn krefst þess t.d. að Alþingi Íslendinga sjái til þess að viðskipti með fisk milli útgerðar og fiskvinnslu verði gagnsæ og uppfylli skilyrði um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Eins og reglurnar eru í dag getur kaupandi og seljandi fisks verið einn og sami aðilinn sem í krafti einokunaraðstöðu sinnar ákveður verðið í eigin viðskiptum. Að mati sjómanna getur þetta verðmyndunarkerfi ekki gengið lengur og því nauðsynlegt að setja reglur sem skylda útgerðina til að selja allan afla, sem fer til vinnslu innanlands, á uppboðsmarkaði fyrir sjávarfang. Það liggur líka fyrir að útgerðamenn hafna því alfarið að tekið verði á mönnunarmálum og einnig hafa þeir hafnað því algjörlega að koma með bætur vegna afnáms sjómannaafsláttar.

 Nú er staðan þannig að sjómenn þurfa að taka afstöðu til þess hvað gera skuli og þess vegna sendi félagið út bréf með skoðanakönnun þar sem meðal annars er spurt um hvort hefja eigi undirbúning verkfallsaðgerða. Vonast formaður félagsins eftir að sjómenn sendi skýr skilaboð um hvað þeir vilji gera til að knýja fram eðlilegan, sanngjarnan og réttlátan kjarasamning til handa sjómönnum því það er ótækt með öllu að sjómenn einir séu án þess að hafa gildandi kjarasamning um sín störf.  

Félagið tók fram í þessu bréfi að hægt yrði að skila skoðanakönnuninni á skrifstofu félagsins eða senda hana í pósti á Sunnubraut 13, 300 Akranesi fyrir 10. janúar næstkomandi. Nú er runnin upp ögurstund um hvað gera skuli í þessari erfiðu deilu því það eru engir aðrir en sjómennirnri sjálfir sem þurfa að taka efnislega afstöðu til þess. Á þeirri forsendu var þessi skoðanakönnun send út en félagið vill einnig minna á að aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn þriðjudaginn 29. desember næstkomandi í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13 þar sem farið verður ítarlega yfir þessi mál.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image