• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Dec

Sjómenn telja öryggi sínu ógnað - tilbúnir í verkfallsátök

Rétt í þessu lauk aðalfundi sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness en á annað hundrað sjómenn tilheyra henni. Eðli málsins samkvæmt var staða kjaramála sjómanna efst á dagskrá þessa fundar auk venjubundinna aðalfundarstarfa.

Eins og allir vita hafa íslenskir sjómenn verið með lausan kjarasamning frá 1. janúar 2011 eða í rétt tæp 5 ár. Djúpstæður ágreiningur hefur verið á milli samningsaðila en ein af aðalkröfum útvegsmanna hefur verið að sjómenn tækju þátt í aukinni kostnaðarhlutdeild í veiðigjöldum, tryggingagjöldum og kolefnisgjaldi. Þessi krafa útvegsmanna myndi þýða að laun sjómanna gætu lækkað um 10-15% ef gengið yrði að henni.

Þessi krafa er náttúrulega með ólíkindum og er hún uppfull af óbilgirni og ósanngirni, sérstaklega í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að afkoma sjávarútvegs hefur aldrei nokkurn tímann verið jafn góð og á undanförnum árum. Sem dæmi þá liggur fyrir að arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsins námu 13,5 milljörðum á árinu 2014 og rúmum 11 milljörðum árið 2013. Þessu til viðbótar hafa skuldir sjávarútvegsins hríðlækkað á undanförnum árum eða um 153 milljarða sem gera 31% frá árinu 2009.

Fundarmönnum var heitt í hamsi yfir þeirri óbilgirni sem þeir finna frá útgerðarmönnum og brann meðal annars heitt á þeim mál er snýst um fækkun skipverja en það hefur verið stefna útgerðarmanna að undanförnu að fækka verulega til dæmis á uppsjávarskipunum og í sumum tilfellum eru skipverjar einungis 8 um borð í þessum stóru og öflugu skipum. Kom skýrt fram hjá sjómönnum sem sóttu fundinn að þeir telji að verið sé að ógna þeirra öryggi illilega með þeirri fækkun sem er að eiga sér stað. Töldu þeir afar brýnt að hvergi yrði hvikað frá þeirri kröfu að tryggð yrði lágmarksmönnun um borð í skipunum enda eru þeir eins og áður sagði farnir að telja að þessi fækkun sé farin að auka verulega slysahættu og að öryggi þeirra sé ógnað.  

Rétt er að vekja sérstaka athygli á að það er ekki bara að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja og arðgreiðslur til eigenda hafi stóraukist eins og áður sagði heldur hafa rekstrarskilyrði sjávarútvegsins líka batnað gríðarlega og nægir að nefna í því samhengi að olíuverð það sem af er árinu 2015 hefur verið 44% lægra að meðaltali en á árinu 2014. Þrátt fyrir þessar staðreyndir og mikinn hagnað sjávarútvegsfyrirtækja á undanförnum árum þá hafa útgerðarmenn gert þessa óbilgjörnu kröfu á íslenska sjómenn. Það gætir mikillar gremju á meðal sjómanna í þessari kjaradeilu enda er þolinmæði þeirra á þrotum. Meginkrafa sjómanna er að þeir fái bætur vegna afnáms sjómannaafsláttar en hann var tekinn af sjómönnum í þrepum. Einnig er krafa frá sjómönnum um að tekið verði á verðmyndun sjávarafurða og allur fiskur fari á markað. Eins og áður sagði vilja sjómenn einnig að tekið verði á mönnunarmálum á skipum en krafa er um að á uppsjávarskipunum verði eigi færri en 10 skipverjar þegar veiðar eru stundaðar með flottrolli og eigi færri en 12 þegar um nótaveiðar er að ræða og 15 á ísfiskstogurum. Öllum þessum kröfum hafa útvegsmenn alfarið hafnað.

Það er ljóst að sjómenn íhuga sterklega að láta sverfa til stáls en verið er að kanna núna á meðal íslenskra sjómanna vítt og breitt um landið hvað þeir vilja raunverulega gera en á þessum fundi var þungur tónn í sjómönnum og virðist vera að menn séu tilbúnir að láta kné fylgja kviði til að ná fram sanngjörnum og réttlátum kjarasamningi sem á að gagnast báðum samningsaðilum ágætlega. Semsagt, sjómenn sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness eru svo sannarlega tilbúnir til að knýja fram sanngjarnar kröfur sínar, til dæmis er lúta að mönnunarmálum, með því að fara í verkfallsátök. Mun formaður koma þessum skilaboðum áleiðis til Sjómannasambands Íslands sem fer með samningsumboð fyrir Verkalýðsfélag Akraness sem og önnur aðildarfélög sín.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image