• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Hugmyndir um að hækka iðgjöld í lífeyrissjóði á kostnað launahækkana Hún passar vel við þessi skopmynd sem birtist í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum.
05
Nov

Hugmyndir um að hækka iðgjöld í lífeyrissjóði á kostnað launahækkana

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá hefur Verkalýðsfélag Akraness falið lögmönnum félagsins að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort svokallað rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins standist lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Þetta SALEK samkomulag verður ekki öðruvísi skilið en að verið sé að skerða samningsrétt stéttarfélaganna gríðarlega. Enda segir í samkomulaginu að mótuð hafi verið sameiginleg launastefna til ársloka 2018 og Samtök atvinnulífsins, ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga skuldbindi sig til að framfylgja þessari launastefnu gagnvart öllum þeim hópum og einnig þeirra sem standa utan samkomulagsins. Takið eftir, Alþýðusambandið er búið að gera rammasamkomulag við þessa aðila þar sem samningsrétturinn er nánast tekinn af stéttarfélögunum og það án þess að hafa neitt umboð til þess eða að kosningar hafi verið framkvæmdar til að veita slíkt umboð. Þessi vinnubrögð eru stórundarleg þó ekki sé fastar að orði kveðið í ljósi þess að samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur hafa stéttarfélögin frjálsan samningsrétt.

Eins og kom einnig fram hér í gær var formanni tilkynnt þegar hann átti fund við forsvarsmenn launanefndar sveitarfélaganna og ríkissáttasemjara í gær að búið væri að ákveða að svigrúm til launahækkana væri einungis rúm 20% því 11,4% áttu að dragast frá vegna fyrri launahækkana sem komið hafa fram í kjarasamningum frá nóvember 2013. Að sjálfsögðu var þetta ekki skilið öðruvísi af hálfu formanns en að hér væri búið að ákveða fyrirfram í gegnum þetta rammasamkomulag hverjar launahækkanirnar ættu að vera þrátt fyrir að samningsrétturinn sé sjálfstæður hjá VLFA eins og öllum öðrum stéttarfélögum á Íslandi samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Það magnaðasta í þessu öllu saman er að formaður VLFA fékk tölvupóst frá forsvarsmönnum launanefndar sveitarfélaga í gærkvöldi þar sem skýrt var frá því að aðilar rammasamkomulagsins hefðu komið saman og ákveðið að breyta viðmiðum frá árinu 2013 hvað varðar sveitarfélögin sem gerði það að verkum að frádrátturinn fór úr 11,4% í 6,3%. Formaður spyr sig eðlilega: Er þetta tilviljun að aðilar SALEK hópsins hafi verið kallaðir saman og frádrátturinn sé lækkaður úr 11,4% í 6,3%. Nei, fjandakornið ekki og má ætla að það hafi gripið um sig einhver hræðsla hjá þessum aðilum sem hljóta að sjá það hvernig þeir hafa skert kjarasamningsrétt sjálfstæðra stéttarfélaga.

Það er fleira sem hefur verið rætt inni í þessum reykfylltu bakherbergjum SALEK hópsins. Eitt af því sem formaður hefur heyrt er að hugmyndir séu um að hækka eigi iðgjöld í samtryggingarlífeyrissjóðinn úr 12% upp í 15,5% á kostnað almennra launahækkana. Formaður trúir ekki öðru en að þessar breytingar fari klárlega í almenna atkvæðagreiðslu því hann er sannfærður um að það er enginn vilji á meðal launafólks að setja meira inn í þá hít sem lífeyrissjóðskerfið er á meðan kerfið hefur ekki getað sýnt fram á sjálfbærni. Ef það er til svigrúm hjá atvinnurekendum til að hækka iðgjöld þá væri miklu nær að nota þá fjármuni annað hvort til almennra launahækkana eða þá að þeir verði eyrnamerktir í séreignarlífeyrissjóð hvers launamanns. En að ætla sér að hækka iðgjöldin um 3,5% í áföngum á kostnað almennra launahækkana er algjörlega galið því hugmyndir eru líka um að hækka töku lífeyris úr 67 árum upp í 70 ár í þrepum og hjá opinbera geiranum úr 65 árum upp í 67 ár. Það er bjargföst skoðun formanns að það sé enginn vilji hjá launafólki til að setja meira inn í samtryggingarþátt lífeyrissjóðsins. Við skulum ekki gleyma því að lífeyrissjóðirnir töpuðu 500 milljörðum í hruninu og búið er að skerða lífeyrisréttindi um 200 milljarða síðan þá.

Formaður skorar á allt launafólk að vera vel vakandi yfir því sem er að gerast á íslenskum vinnumarkaði því það er markmið þessara aðila að festa hér í sessi samræmda láglaunastefnu til eilífðarnóns. Stöndum saman öll sem eitt og komum í veg fyrir að slíkt gerist.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image