• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Nov

Neyðarfundur með starfsmönnum Akraneskaupstaðar vegna djúpstæðs ágreinings vegna kjarasamningsgerðar!

Verkalýðsfélag Akraness boðar til gríðarlega áríðandi neyðarfundar á morgun með starfsmönnum Akraneskaupstaðar vegna djúpstæðs ágreinings félagsins í kjarasamningsviðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga. Eins og flestir vita hefur Verkalýðsfélag Akraness gagnrýnt harðlega svokallað SALEK samkomulag eða rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins. Rammasamkomulag sem klárlega getur verið gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur enda gengur samkomulagið út á að skerða stórkostlega frjálsan samningsrétt íslenskra stéttarfélaga.

Það ótrúlega hefur verið að gerast í þessu máli að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur verið að ganga frá kjarasamningum við ein 35 stéttarfélög þar sem búið er að hengja SALEK samkomulagið við kjarasamninginn og það þrátt fyrir að verulegar líkur séu á að slíkt sé gróft brot á frjálsum samningsrétti íslenskra stéttarfélaga. Það er reyndar með ólíkindum að íslensk stéttarfélög skuli yfir höfuð samþykkja að umrætt rammasamkomulag sé orðið hluti af kjarasamningi starfsmanna sem starfa hjá íslenskum sveitarfélögum en það er eitthvað sem þau verða að eiga við sína samvisku.

Nú hefur Samband íslenskra sveitarfélaga krafist þess að Verkalýðsfélag Akraness falli frá máli sem nú er rekið fyrir Félagsdómi og einnig að félagið skrifi undir nákvæmlega eins kjarasamning og hin félögin, með SALEK samkomulaginu, en að öðrum kosti fái félagið engan samning né hugsanlega afturvirkni samningsins frá 1. maí 2015. VLFA gerir ekki ýkja miklar athugasemdir við launabreytingar samningsins enda eru þær innan þeirra væntinga sem félagið hafði hvað launahækkanir til handa starfsmönnum Akraneskaupstaðar varðar. Hinsvegar kemur ekki til greina að skrifa undir samkomulag með svokölluðu SALEK samkomulagi því forsvarsmenn félagsins eru löghlýðið fólk og skrifar ekki undir samkomulag sem yfirgnæfandi líkur eru á að sé brot á íslenskum lögum.

Ef fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðilar SALEK samkomulagsins halda í eina einustu mínútu að hægt sé að beita Verkalýðsfélag Akraness slíkri kúgun, þá vaða menn villu vegar. Það er hinsvegar fróðlegt að vita hvort þessi hótun Sambands íslenskra sveitarfélaga sé gerð með vitneskju bæjarstjóra og bæjaryfirvalda því annað eins ofbeldi gagnvart sínum félagsmönnum hefur formaður ekki orðið áskynja á 12 ára ferli sem formaður félagsins. Það er með ólíkindum að Samband íslenskra sveitarfélaga virðist ekki vilja fá efnislega niðurstöðu fyrir Félagsdómi í þessu veigamikla máli en ætlar hinsvegar að reyna að beita grófum þvingunaraðferðum á saklausa starfsmenn Akraneskaupstaðar. Slíku ofbeldi verður að sjálfsögðu mætt af fullum þunga af hálfu félagsins.

Rammasamkomulagið sem gerð er krafa um að fylgi með kjarasamningnum gengur út á að félagið sé skuldbundið til að ganga frá öllum þeim samningum sem félagið á eftir á sömu nótum og kveðið er á um þar, semsagt samningsrétturinn er tekinn af félaginu. Félagið er til dæmis með lausa samninga við Elkem Ísland á Grundartanga árið 2017 og því er með ólíkindum að leggja það á herðar starfsmanna Akraneskaupstaðar að sá samningsréttur sé skertur allverulega með samþykki rammasamkomulagsins. Þessu til viðbótar er kveðið á um í SALEK samkomulaginu að endurskoðunarákvæði sem eiga sér stað í febrúar falli úr gildi að uppfylltum vissum skilyrðum. Formaður spyr reyndar hvaða heimild þeir hafi og í hvaða umboði aðilar rammasamkomulagsins geri slíkt enda er kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði sjálfstæður kjarasamningur og algjörlega óháður öðrum kjarasamningum.

Hinsvegar er stóra málið sem fram kemur í SALEK samkomulaginu það að eftir árið 2018 verði tekið upp nýtt vinnumarkaðslíkan. Vinnumarkaðslíkan sem gengur út á að stofnað verði þjóðhagsráð sem hafi það markmið að meta hvert svigrúm til launabreytinga geti orðið. Ef þetta þjóðhagsráð mun komast að því að svigrúmið sé 2,5% þá verður stéttarfélögunum skylt að semja innan þess svigrúms enda er skýrt kveðið á um slíkt í rammasamkomulaginu. Semsagt, samningsréttur íslenskra stéttarfélaga verður fótum troðinn verði þetta að veruleika en Verkalýðsfélag Akraness mun berjast af alefli fyrir því að svo verði ekki.

Það er grátbroslegt til þess að vita að þegar Verkalýðsfélag Akraness hefur náð góðum kjarasamningum eins og til dæmis á Grundartanga og við HB Granda í síðustu samningum þá hafa forsvarsmenn bæjarins komið og klappað forsvarsmönnum Verkalýðsfélags Akraness á bakið og sagt glæsilegt hjá ykkur, það skiptir miklu máli að þið náið að bæta kjör ykkar félagsmanna því það skilar sér með afgerandi hætti í hækkun tekna bæjarsjóðs í formi útsvars. En núna er semsagt krafa Akraneskaupstaðar sú að eftir árið 2018 verði Verkalýðsfélagi Akraness og öðrum stéttarfélögum þetta ekki heimilt enda skýrt kveðið á um eins og áður sagði að stéttarfélögin verði að vera innan þess svigrúms sem þjóðhagsráð ákvarðar. Svigrúmið sem þjóðhagsráð mun komast að liggur nokkurn veginn fyrir enda hafa forsvarsmenn SA og ASÍ sagt á fundi hjá framkvæmdastjórn Samiðnar að þetta svigrúm sé á bilinu 2-3,5%. Það er ömurlegt til þess að vita að íslensku launafólki sé sagður hálfur sannleikurinn í þessu máli. Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar margir hverjir segja að ekkert sé búið að ákveða í þessum málum en slíkt eru hreinustu ósannindi enda er búið að móta svona nokkurn veginn hvernig þetta þjóðhagsráð mun verða.

Ég skora á íslenskt launafólk að fylgjast með því hvað hér er að gerast. Látum ekki traðka á okkur og taka af okkur samningsréttinn eða í það minnsta skerða hann stórlega. Og rétt er að minna á að þegar rannsóknarskýrsla Alþingis kom út vegna bankahrunsins þá bentu skýrsluhöfundar á að það sem leiddi okkur í þessar ógöngur voru meðvirkni, jámennska og gagnrýnilaus hugsun. Og það nákvæmlega sama er að gerast núna, menn horfa á þetta með meðvirkni, jámennsku og gagnrýnislausri hugsun. Að sjálfsögðu gæti Verkalýðsfélag Akraness hallað sér aftur og látið eins og þetta sé allt í góðu en forsvarsmenn félagsins hafa ekki samvisku til að taka þátt í slíkum gjörningi. Enda er hér um lífsviðurværi íslensks verkafólks og velferð þeirra að ræða.

Að lokum hvetur Verkalýðsfélag Akraness alla sem sem starfa hjá Akraneskaupstað til þess að mæta á þennan neyðarfund sem haldinn verður í hátíðarsal íþróttamiðstöðvarinnar að Jaðarsbökkum kl. 17 á morgun, föstudag. Félagar, látum ekki þetta ofbeldi yfir okkur ganga, stöndum saman öll sem eitt!  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image