• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Nov

Gríðarleg samstaða á meðal starfsmanna Akraneskaupstaðar gegn SALEK samkomulaginu

Rétt í þessu lauk fundi starfsmanna Akraneskaupstaðar vegna þeirrar grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga. Eins og flestir vita rann kjarasamningur Verkalýðsfélags Akraness við Samband íslenskra sveitarfélaga út 1. maí síðastliðinn og nú hefur Sambandið gert þá skýlausu kröfu á VLFA að svokallað rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins eða nánar tiltekið SALEK samkomulagið sé hluti af þeim kjarasamningi sem verður gerður.

Starfsmenn Akraneskaupstaðar sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness voru einróma sammála um að það væri algjörlega ómögulegt því slíkt væri í andstöðu við frjálsan samningsrétt stéttarfélaga og brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og frjálsan samningsrétt stéttarfélaganna samkvæmt stjórnarskránni. Samþykkt var ályktun á fundinum þar sem meðal annars kom fram að félagsfundur starfsmanna sem tilheyri Verkalýðsfélagi Akraness harmi það ofbeldi sem Samband íslenskra sveitarfélaga reynir að beita samninganefnd VLFA með því að gera skýlausa kröfu um að SALEK samkomulagið verði hluti af kjarasamningi starfsmanna, ellegar verði enginn kjarasamningur gerður.

Í þessari ályktun er líka kveðið á um að starfsmenn telja sig hvorki hafa lagalega heimild né umboð til að skerða samningsrétt annarra launamanna í sínum kjarasamningum með því að samþykkja umrætt rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins. En það var mat fundarmanna að fjölmörg atriði í rammasamkomulaginu frá 27. október muni klárlega leiða til takmarkana og skerðingar á samningsfrelsi launafólks til framtíðar. En orðrétt hljóðar ályktun fundarins með eftirfarandi hætti:

Ályktun

 

Félagsfundur  starfsmanna Akraneskaupstaðar sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness, haldinn 27. nóvember 2015, harmar það ofbeldi sem Samband íslenskra sveitafélaga reynir að beita samninganefnd VLFA með því að gera skýlausa kröfu um að SALEK-samkomulagið verði hluti af kjarasamningi starfsmanna ellegar verði enginn kjarasamningur gerður.

Félagsfundur starfsmanna Akraneskaupstaðar telur sig hvorki hafa lagalega heimild né umboð til að skerða samningsrétt annarra launamanna í sínum kjarasamningum með því að samþykkja umrætt rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins.  Fjölmörg atriði í rammasamkomulaginu frá 27. október munu klárlega leiða til takmarkana og skerðingar á samningsfrelsi launafólks til framtíðar.

Einnig lýsir félagsfundurinn undrun sinni á þeirri skýlausu kröfu Sambands íslenskra sveitfélaga að Verkalýðsfélag Akraness dragi til baka stefnu félagsins gegn Sambandi íslenskra sveitafélaga þar sem látið er reyna á lögmæti SALEK- samkomulagsins.  Fundurinn undrast það að sambandið vilji ekki fá efnislega niðurstöðu frá félagsdómi um hvort aðilar SALEK- samkomulagsins séu að brjóta lög um stéttarfélög og vinnudeilur, enda er samningsfrelsi stéttarfélaganna hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar og einnig varinn í stjórnarskrá Íslands og í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Fundurinn lýsir fullum stuðningi við baráttu Verkalýðsfélags Akraness í kjaradeilu félagsins við Samband íslenskra sveitafélaga enda telur fundurinn að framtíð íslenskrar stéttarfélagsbaráttu sé í húfi.  Fundurinn skorar á allt íslenskt launafólk að kynna sér margumrætt SALEK-samkomulag vel og rækilega því frjálsum samningsrétti stéttarfélaga fyrir bættum kjörum launafólks verður ógnað illilega ef þetta rammasamkomulag verður endanlega að veruleika.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image