• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Sep

Sólarkísilverksmiðjan verður að veruleika - 450 ný störf!

Það er óhætt að segja að bjart sé yfir atvinnulífi hér á Akranesi og í Hvalfjarðasveit eftir að  Terry Jester, forstjóri og stjórnarformaður Silicor, greindi frá því á hátíðarfundi á Hótel Glym í Hvalfjarðarsveit rétt í þessu að fjármögnun og samningagerð vegna fyrri hluta byggingar umhverfisvænnar sólarkísilverksmiðju Silicor á Grundartanga væri lokið og áætlað væri að fjármögnun seinni hluta yrði lokið um mitt ár 2016.

Þetta eru gríðarlega jákvæðar fréttir fyrir okkur Akurnesinga og Hvalfjarðarsveit og reyndar samfélagið allt því okkur vantar gjaldeyrisskapandi störf, meðal annars til að geta rekið okkar grunnstoðir eins og heilbrigðis- og menntakerfið.

Það er afar ánægjulegt að vita til þess að Silicor materials á Grundartanga verður samkvæmt óháðum aðila umhverfisvænasta stóriðja á Íslandi, enda hefur hún það markmið að framleiða sólarkísil sem meðal annars er notaður í sólarrafhlöður, sem síðan eru notaðar í framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjafa. Það mun þurfa um 600 til 700 manns til starfa við uppbyggingu á verksmiðjunni en þegar verksmiðjan verður komin í fulla framleiðslu þá munu varanleg vel launuð og gjaldeyrisskapandi störf verða um 450 talsins. Ekki má gleyma margfeldiáhrifunum af þessari vistvænu verksmiðju í formi afleiddra starfa sem jafnvel geta skipt hundruðum.

Væntanlega munu Faxaflóahafnir hefja vegaframkvæmdir að athafnasvæðinu á næstu vikum og um áramótin mun jarðvegsvinna hefjast af fullum krafti sem og uppbyggingin en áætlað er að framleiðslan verði komin á fullt skrið árið 2018.

Til að átta sig á hversu jákvæð áhrif þetta hefur á þjóðarbúið í heild sinni þá er áætlað að Silicor materials muni skila íslensku þjóðarbúi útflutningstekjum sem nema um 50 milljörðum ár hvert sem jafnast á við tvær makrílvertíðir.

Það er gríðarlega mikilvægt að við Akurnesingar verðum tilbúnir til að mæta þeirri miklu uppbyggingu sem verður í okkar samfélagi strax í upphafi. Því skiptir miklu máli að bæjaryfirvöld búi sig vel undir þá miklu fjölgun sem getur orðið hér á Akranesi og í nágrenninu. Formaður veit að Ólafur Adolfsson, forseti bæjarstjórnar, bæjarstjórinn og bæjarstjórnin í heild sinni hefur unnið gríðarlega vel í þessu máli og ætla að láta innviði bæjarfélagsins vera í stakk búna til að taka við þessari jákvæðu fjölgun og uppbyggingu sem verður í kjölfarið á þessari vistvænu stóriðju.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image