• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Jun

Iðnaðarmenn sem starfa eftir kjarasamningi Samiðnar við SA samþykkja verkfall

Deildaskipt félag eins og Verkalýðsfélag Akraness á aðild að fjölmörgum kjarasamningum og eru flestir þeirra lausir um þessar mundir. Fyrir helgi var samið við Samtök atvinnulífsins vegna starfa á almennum vinnumarkaði, en félagsmenn sem starfa eftir þeim samningi þurftu að beita verkfallsvopninu í apríl og maí til að knýja á um að eitthvað þokaðist í samningsátt. Sá samningur verður kynntur á næstunni og síðan borinn undir atkvæði félagsmanna.

Þeir iðnaðarmenn sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness hafa einnig setið við samningaborðið síðustu misseri, en upp úr viðræðum slitnaði í byrjun maí. Samstarf er um endurnýjun þess kjarasamning og fer Samiðn með samningsumboðið fyrir hönd VLFA, en VLFA á fulltrúa í samninganefndinni. Í gær lauk kosningu meðal iðnaðarmanna um heimild til verkfallsboðunar. Kosningarnar náðu til 10.499 félagsmanna í 25 stéttarfélögum og var kosningaþátttakan 44,6%. Kosið var um hvort boða ætti til tímabundins verkfalls sem hefst kl. 00:00 þann 10. júní og stendur til kl. 24:00 þann 16. júní nk. Þann 24. ágúst kl. 00:00 hefst síðan ótímabundið verkfall. Já sögðu 75,1%. Nei sögðu 22,1%. Þeir sem ekki tóku afstöðu voru 2,8%.

Heimild til verkfallsboðunar var því samþykkt með miklum meirihluta atkvæða og náist ekki ásættanlegur árangur í viðræðum við atvinnurekendur á næstu dögum koma framangreind verkföll til framkvæmda. Athugið að þessi verkfallsboðun nær aðeins til iðnaðarmanna sem starfa eftir kjarasamningi Samiðnar við Samtök atvinnulífsins, en gildir ekki fyrir starfsmenn ríkis, sveitarfélaga eða stóriðjufyrirtækjanna á Grundartanga, þar gilda aðrir kjarasamningar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image