• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Jun

Nokkuð góður árangur VLFA við kjarasamningsgerð

Það er óhætt að segja að mikið annríki hafi ríkt við gerð kjarasamninga á síðustu mánuðum. Hinsvegar er það mjög ánægjulegt að Verkalýðsfélag Akraness hefur náð einstaklega góðum árangri í mörgum samningum sem félagið hefur gert á liðnum misserum og nægir að nefna eftirfarandi samninga og samkomulög:

  •  Gerður var tímamótasamningur við Norðurál þar sem launahækkanir voru í fyrsta skipti tengdar hækkun launavísitölu en því til viðbótar hækka laun starfsmanna á 1. ári um rúm 10% auk þess sem hver starfsmaður fékk 300.000 kr. eingreiðslu. Eftir samninginn eru heildarlaun byrjanda í vaktavinnu hjá Norðuráli með öllu 500.000 kr. en á bakvið þá upphæð eru 182 vinnustundir á mánuði.
  • Gerður var kjarasamningur við verktakafyrirtækið Snók þar sem laun starfsmanna hækkuðu um 70-80.000 kr. á mánuði ásamt því að orlofs- og desemberuppbætur hækkuðu um rúmar 200.000 kr. á ári og einnig voru réttindi starfsmanna færð til samræmis kjarasamnings Elkem Ísland.
  • Gerður var bónussamningur við HB Granda sem tryggði fiskvinnslufólki launahækkun frá 26.000 upp í 51.000 kr. og með nýgerðum kjarasamningi er fiskvinnslufólkið hjá HB Granda, sem er uppundir 50% af félagsmönnum VLFA á hinum almenna vinnumarkaði, að hækka frá rúmum 50.000 kr. upp í allt að 88.000 kr. á mánuði frá og með 1. maí síðastliðnum.
  • Gerður var samningur við Faxaflóahafnir fyrir gæslumenn sem starfa á Grundartangasvæðinu og voru laun þeirra að hækka frá 106 þúsund krónum á mánuði upp í allt að 140.000 kr. frá og með 1. maí síðastliðnum.
  • Gerð voru 14 samkomulög við hin ýmsu fyrirtæki á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness sem tryggðu öllum hækkun sem nam um 35.000 kr. á mánuði og voru þessi samkomulög gerð til að forða fyrirtækjum frá þeim verkfallsaðgerðum sem félagið hafði boðað til.
  • Kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði er að gefa íslensku verkafólki sem starfar eftir taxtakerfinu eina bestu hækkun sem um hefur verið samið um alllanga hríð enda eru launataxtar að hækka að meðaltali um uppundir 27.000 kr. á mánuði en slík krónutöluhækkun hefur ekki náðst í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði um áratugaskeið.
  • Starfsmenn Síldarbræðslunnar munu fá launahækkun sem gildir frá 1. maí upp á 12,86%.

Á þessu sést að árangur Verkalýðsfélags Akraness í kjarasamningsmálum á liðnum misserum hefur verið mjög góður þó það sé alltaf þannig að menn vilji gera mun betur því kjarabarátta er einu sinni þannig að henni lýkur aldrei. Það er alltaf hægt að bæta kjör og réttindi félagsmanna enda er það hlutverk stéttarfélaga að tryggja sínum félagsmönnum góð réttindi og kjör og verja atvinnuöryggi þeirra.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image