• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
May

Kjarasamningar undirritaðir í húsakynnum ríkissáttasemjara - 300.000 kr. lágmarkslaun náðust!

Rétt í þessu voru undirritaðir kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði en það er óhætt að segja að mikið hafi gengið á við gerð þessa kjarasamnings. Sem dæmi þá hefur Verkalýðsfélag Akraness ásamt aðildarfélögum SGS nú þegar tekið 3 daga í verkfall en slíkt hefur ekki gerst í áratugi að verkafólk hafi þurft að beita verkfallsvopninu til að knýja fram sínar sanngjörnu kröfur um að lágmarkslaun hækki umtalsvert. Í dag er VLFA til dæmis að greiða út á 6. milljón króna í verkfallsbætur til félagsmanna sem sýnir svo ekki verður um villst hversu mikil harka var komin í þessa deilu. 

Innihald samningsins verður ítarlega kynnt eftir helgi en það má segja að meginkrafa verkalýðshreyfingarinnar hafi náðst fram sem var að lágmarkslaun á Íslandi myndu ná 300.000 kr. innan þriggja ára. Það er alveg morgunljóst að þessi samningur er að koma tekjulægsta fólkinu hvað best þó það skuli fúslega viðurkennast að öll aðildarfélög SGS hefðu viljað ná meiru fram. En þannig er það í allri kjarasamningsgerð að það næst aldrei allt fram og baráttan fyrir bættum kjörum verkafólks er eilíf og er hvergi nærri lokið. 

Það liggur fyrir að taxtar verkafólks munu hækka um 25.000 kr. frá og með 1. maí næstkomandi ásamt því að skorinn verður einn launaflokkur af launatöflunni en rétt er að vekja sérstaka athygli á því að langstærstur hluti félagsmanna VLFA sem tekur laun eftir þessum kjarasamningi er fiskvinnslufólk sem starfar hjá HB Granda á Akranesi en um er að ræða á þriðja hundrað manns. Í því samhengi er rétt að vekja athygli á að VLFA var búið að ganga frá bónussamningi við HB Granda sem var að skila fiskvinnslufólkinu allt að 51.000 kr. launahækkun þannig að þegar taxtahækkunin verður komin til viðbótar má segja að flest fiskvinnslufólk á Akranesi muni hækka strax á fyrsta ári með bónussamningnum um tæpar 80.000 kr. á mánuði . 

Orlofs- og desemberuppbætur munu líka hækka ásamt fjölmörgum atriðum sem tengjast kjarasamningnum. Sem dæmi náði SGS fram tveggja flokka launahækkun til handa fiskvinnslufólki sem starfað hefur í 7 ár hjá sama atvinnurekanda sem skilar því tæpum 4.000 kr. auka hækkun. En eins og áður sagði mun formaður fara ítarlega yfir samninginn hér á heimasíðunni og einnig verður boðið upp á víðtækar kynningar á kjarasamningnum í komandi viku. 

Rétt er að taka fram að aðkoma stjórnvalda til að liðka fyrir gerð kjarasamninga skiptir miklu máli. Þar má nefna fyrirhugaðar heildarlækkanir á tekjuskatti einstaklinga sem á að auka ráðstöfunartekjur um 50-100 þúsund á ári. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar tengjast skatta-, velferðar- og húsnæðismálum og eiga að stuðla að bættum kjörum almennings. 

En eins og áður sagði hefðu allir viljað ná enn lengra í þessum samningum en grundvallaratriðið er að 300.000 kr. markmiðið náðist. Það sorglega í þessu öllu var að Efling og VR sem leiddu þessar viðræður eftir að Samtök atvinnulífsins slitu viðræðum við landbyggðarfélögin innan SGS voru búin að ganga frá samkomulagi við SA um að einstaklingar sem eru 18 ára fái einungis 90% af fullum launataxta 20 ára og 19 ára einstaklingar fái 95%.  Þessi vinnubrögð voru gjörsamlega ótrúleg og kom formaður á framfæri hörðum mótmælum vegna þessa en því miður er erfitt fyrir minni félög á landsbyggðinni að standa fast á sínu eftir að stóru félögin hafa lagt blessun sína yfir þennan gjörning.  Eitt er víst að vinda þarf ofan af þessum vinnubrögðum enda engin rök fyrir því að 18 og 19 ára einstaklingar njóti ekki fullra launa. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image