• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
May

VLFA hefur gert á annan tug samninga við atvinnurekendur

Annar dagur allsherjarverkfalls stendur nú sem hæst á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness sem og annarra aðildarfélaga SGS á landsbyggðinni. Heilt yfir hefur verkfallið gengið vel fyrir sig þó nokkur dæmi séu um verkfallsbrot og eitt af þeim er að vegna tungumálaörðugleika var einn af leikskólum bæjarins ræstur fyrir misskilning en það er ræstingarfyrirtækið Hreint ehf sem um ræðir þar. Ábyrgðin liggur algjörlega hjá atvinnurekandanum að upplýsa sína erlendu starfsmenn um hvað er í gangi á íslenskum vinnumarkaði um þessar mundir. Ræstingarfyrirtækið Hreint ehf. hefur fengið lokaaðvörun um að virða þær leikreglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði þegar um verkföll er að ræða og sjá til þess að slíkt komi ekki fyrir aftur.  

Það ánægjulega í þessu er að fjöldi atvinnurekenda hefur komið á skrifstofu félagsins og óskað eftir því að ganga frá samningi þar sem farið verður í hvívetna eftir þeirri kröfugerð sem fyrir liggur fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði. Félagið hefur gert á annan tug slíkra samninga en í öllum tilfellum er um fyrirtæki að ræða sem ekki eru aðilar að Samtökum atvinnulífsins. Félagið vill virða þær leikreglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og hefur því bent þeim fyrirtækjum sem eru innan SA og hafa óskað eftir að ganga frá samningi um að sækja um leyfi hjá samtökunum og þrýsta á Samtök atvinnulífsins að ganga frá kjarasamningum á grundvelli þeirrar kröfugerðar sem fyrir liggur. Allir eiga þessir aðilar það sammerkt að finnast kröfugerð okkar sanngjörn, réttlát og eðlileg og segjast hafa fulla burði til að hækka laun sinna starfsmanna um sem nemur um 33.000-35.000 kr. á mánuði. 

Formaður situr í samningaráði SGS en næsti fundur hefur verið boðaður á morgun kl. 13:30 í húsakynnum ríkissáttasemjara. Því miður er fátt sem bendir til þess að það dragi til stórra tíðinda á þeim fundi. En það er mikilvægt að Samtök atvinnulifsins fari að nálgast þetta viðfangsefni af skynsemi og raunsæi og gangi frá kjarasamningi sem tryggir að lágmarkslaun verði orðin 300.000 kr. innan þriggja ára svo það sé möguleiki hjá íslensku verkafólki að geta haldið mannlegri reisn á sínum launum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image