• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Apr

Fyrirtækjasamningur við Snók skilar starfsmönnum gríðarlegum ávinningi

GrundartangasvæðiðVerkalýðsfélag Akraness gekk frá fyrirtækjasamningi við verktakafyrirtækið Snók þann 10. apríl en umrætt fyrirtæki starfar á Grundartangasvæðinu. Um árabil hafði staðið deila milli Snóks og félagsins þar sem VLFA vildi að starfsmenn Snóks tækju laun sín eftir stóriðjusamningi Elkem Ísland á Grundartanga enda er sá samningur langt um betri en kjarasamingurinn á hinum almenna vinnumarkaði. 

Samkomulag um þetta náðist semsagt og mun það skila starfsmönnum gríðarlegum réttindaauka, ekki bara í formi launahækkana heldur margvíslegra annarra réttinda eins og til dæmis veikinda- og slysaréttar, hækkun á orlofs- og desemberuppbótum og því til viðbótar er dagvinnutímabilið samkvæmt þessum nýja fyrirtækjasamningi ekki 173,33 tímar eins og á hinum almenna vinnumarkaði heldur 156 tímar. 

Það er ljóst að sumir starfsmenn munu hækka í launum um allt að 70-80.000 kr. á mánuði, orlofs- og desemberuppbætur munu hækka úr 112.000 kr. samtals í 327.288 kr. eða sem nemur 215.288 kr. Það er ljóst að þessi fyrirtækjasamningur er gríðarlega mikilvægur enda er núna búið að tryggja að verktakafyrirtækið Snókur sem starfar inni á Grundartangasvæðinu greiðir sömu laun og stóriðjusamningur Elkem Ísland. Með þessu er eins og áður sagði áralangri deilu lokið og gerir Verkalýðsfélag Akraness eðli málsins samkvæmt ekki neinar athugasemdir lengur við þau verkefni sem þetta ágæta fyrirtæki innir af hendi á Grundartangasvæðinu enda búið að tryggja starfsmönnum þau laun sem stóriðjan er að greiða á svæðinu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image