• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Apr

Verkfall samþykkt með 98% greiddra atkvæða

Kosningu Verkalýðsfélags Akraness sem og annarra aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands um verkfall lauk á miðnætti. Það er skemmst frá því að segja að kosningaþátttaka var nokkuð góð eða tæp 60%. Verkfallið var samþykkt með afgerandi meirihluta eða tæplega 98% þeirra sem tóku afstöðu. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að íslenskt verkafólk ætlar ekki að láta það óréttlæti og þá misskiptingu sem ríkt hefur í garð verkafólks á liðnum árum og áratugum viðgangast stundinni lengur. 

Það er líka ljóst að verkafólk er tilbúið til að knýja fram réttláta og sanngjarna kröfu, kröfu er lýtur að því að dagvinnulaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og að lágmarkslaun verði orðin 300.000 kr. eigi síðar en innan þriggja ára. Verkafólk er tilbúið í blóðug átök til að knýja fram þessa sanngjörnu kröfu og með þessa samstöðu að baki er ljóst að því eru allir vegir færir. 

Það liggur fyrir að verkfallið mun hafa mikil og víðtæk áhrif en eins og fram hefur komið þá nær verkfallið til 116 fyrirtækja á Akranesi. Þar má til dæmis nefna GMR á Grundartanga, flutningafyrirtæki, rútufyrirtæki, verktakafyrirtæki, lifrarbræðsluna, hrognavinnslu, ræstingar, bensínstöðvarnar og meira að segja mun þetta verkfall ná til starfsmanna Spalar sem vinna í gjaldskýlinu í Hvalfjarðargöngum. Einnig liggur fyrir að mötuneyti hjá stóriðjufyrirtækinu Elkem Ísland mun heyra undir þetta verkfall enda starfar starfsfólkið þar eftir kjarasamningnum á hinum almenna vinnumarkaði eftir að Elkem bauð út mötuneyti, ræstingar og annað og það fór í hendur ISS. 

Verkfallið mun hefjast á hádegi þann 30. apríl og standa fram að miðnætti. Síðan mun næsta lota vera frá miðnætti 6. og 7. maí, aftur 19. og 20. maí og að lokum 26. maí ótímabundið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image