• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Jan

Útlitið orðið verulega dökkt !

Það verður að segjast alveg eins og er að útlitið er orðið verulega dökkt í kjaraviðræðum við forsvarsmenn Íslenska járnblendifélagsins.  Allavega er það mat formanns félagsins eftir  samningafundinn sem haldinn var í dag hjá ríkissáttasemjara.  Einnig er það mat Verkalýðsfélags Akraness að töluverðar líkur séu orðnar á því að til verkfalls geti komið hjá starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins.  Eins og áður segir er þetta mat formanns félagsins miðað við þær viðræður sem áttu sér stað í dag. Vonandi er þetta mat rangt, en því miður telur VLFA að svo sé alls ekki. 

Yfir 90% starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness.  Það liggur því alveg ljóst fyrir að hagsmunir félagsins í þessum kjaraviðræðum er feyki miklir.  Forsvarsmönnum Íslenska járnblendifélagsins voru afhent áhersluatriði á blaði fyrir nokkrum dögum, sem eru forsenda félagsins til að hægt verði að ganga frá nýjum kjarasamningi og það er alveg ljóst að hvergi verður hvikað frá þeim áhersluatriðum.  Og eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness er svo sannarlega tilbúið að berjast fyrir bættum hag starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins, með öllum tiltækum ráðum.  Verkalýðsfélag Akraness er búið að reyna frá því í byrjun október að leysa þessa kjaradeilu bæði í formlegum viðræðum sem og óformlegum, og hefur félagið lagt gríðarlega mikla vinnu í að leysa þessa kjaradeilu.  Því veldur þessi niðurstaða í dag verulegum vonbrigðum.  Ekki verður farið efnislega í þau ágreiningsatriði sem um ræðir að svo stöddu.  Formaður félagsins mun setja sig í samband við starfsmenn Íj og gera þeim grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin.  Í framhaldi af þeim viðræðum við starfsmenn mun félagið taka ákvörðun um hvað sé heppilegast að gera í framhaldinu.  Næsti samningafundur verður mánudaginn 31. janúar, en eins og áður sagði er útlitið verulega dökkt, og er þar vægt til orða tekið. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image