• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
VLFA leggur fram ályktanir fyrir þing ASÍ Formaður VLFA í ræðustól á þingi ASÍ 2009
17
Oct

VLFA leggur fram ályktanir fyrir þing ASÍ

Eftir rétt rúma viku eða nánar til getið 26. október hefst 42. þing Alþýðusambands Íslands og stendur þingið yfir í 3 daga. Rétt er að geta þess að þing Alþýðusambandsins eru æðsta vald í málefnum sambandsins, en þau eru haldin á tveggja ára fresti. Hvert aðildarfélag hefur rétt á að senda a.m.k. einn fulltrúa á þing sambandsins og á þingin mæta þrjú hundruð fulltrúar launafólks af öllu landinu til að móta heildarsamtökunum stefnu og starfsáætlun og velja þeim forystu. Verkalýðsfélag Akraness  á 8 þingfulltrúa á þinginu í ár.

Verkalýðsfélag Akraness tekur ætíð virkan þátt á þingum ASÍ og það gerir félagið með því að taka þátt í umræðum og koma þeim sjónarmiðum sem félagið telur að séu til hagsbóta fyrir félagsmenn vel á framfæri.

Þessu til viðbótar leggur VLFA ætíð lagt fram ályktanir til afgreiðslu á þingum ASÍ og það eru fá félög innan ASÍ sem hafa lagt fram fleiri ályktanir en Verkalýðsfélag Akraness á síðastliðnum þingum. Þetta gerir VLFA í ljósi þess að þing ASÍ eru æðsta vald í málefnum sambandsins og það er þingið sem mótar stefnu heildarsamtakanna í hinum ýmsu hagsmunamálum er lúta að félagsmönnum. Á þeirri forsendu er mikilvægt að stéttarfélögin séu virk í að leggja fram tillögur og ályktanir sem félögin telja að séu til hagsbóta fyrir sína félagsmenn.

Á liðnum þingum hefur VLFA lagt fram margar tillögur og ályktanir og nægir að nefna tillögu um að stjórnarmenn í lífeyrissjóðum verði kosnir af öllum sjóðsfélögum og atvinnurekendur fari úr stjórnum sjóðanna, að forseti ASÍ sé kosinn í allsherjarkosningu á meðal allra félagsmanna ASÍ en ekki inná lokuðum þingum ASÍ einnig hefur VLFA lagt fram ályktun um að ASÍ vilji að verðtrygging á neytendalánum verði afnumin og sett verði þak á óverðtryggða vexti.

Á komandi þingi mun Verkalýðsfélag Akraness leggja fram tvær ályktanir. Önnur lýtur að nýju samningalíkani þar sem allt bendir til að mikilvægasti réttur launafólks verði skertur gróflega, en að sjálfsögðu er hér verið að tala um samningsréttinn. Síðari ályktunin lýtur að því að ASÍ beiti sér fyrir því að húsnæðisliðurinn verði tekin út úr mælingu neysluvísitölunnar enda hefur sá liður knúið verðbólguna áfram bæði fyrir og eftir hrun. Þetta er afar mikilvægt í ljósi þess að nánast allar fjárskuldbindingar heimilanna eru tengdar við umrædda neysluvísitölu.

Það er ljóst að fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness munu berjast fyrir því að þessar ályktanir fái brautargengi á þinginu enda eru miklir hagsmunir undir í báðum þessum málum en eins og allt launafólk veit þá er samningsréttur launafólks hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar á Íslandi og hann má ekki skerða undir nokkrum kringumstæðum. 

Hægt er að skoða ályktanir Verkalýðsfélags Akraness með því að smella hér og hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image