• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
31
Oct

Ályktun um að vísitala til neysluverðs til verðtryggingar skv. lögum um vexti og verðtryggingu verði hér eftir reiknuð út án húsnæðisliðar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu VLFA stóð þing Alþýðusambands Íslands yfir dagana 26. til 28. október.  Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð látið til sín taka á þessum þingum enda eru þing ASÍ æðsta vald innan verkalýðshreyfingarinnar og þar eru stefna í hinum ýmsu málum mótuð.  Á þessu þingi var engin undartekning á og lagði VLFA fram tvær ályktanir. Önnur laut að samningsfrelsi stéttarfélaganna en hin laut að því að skorað var á stjórnvöld og Alþingi að vísitala til neysluverðs til verðtryggingar skv. lögum um vexti og verðtryggingu verði hér eftir reiknuð út án húsnæðisliðar.  

Það er skemmst að segja frá því að þessi tillaga okkar var samþykkt með öllum greiddum atkvæða. Formaður Verkalýðsfélags Akraness skal fúslega viðurkenna að hann var afar ánægður með að hafa fengið þessa tillögu samþykkta enda morgunljóst að hér er um gríðarlega hagsmuni fyrir íslensk heimili um að ræða og nægir að nefna í því samhengi að 12 mánaða verðbólgan í dag er 1,8% en án húsnæðisliðar er hún neikvæð um 0,5%.

Til að sýna fram á hversu miklir hagsmunir eru hér í húfi fyrir heimilin og íslenska neytendur þá eru verðtryggðar skuldir heimilanna um 2000 milljarðar og hækkun á neysluvísitölunni upp á 1,8% hefur leitt til þess að skuldir heimilanna hafa hækkað um 36 milljarða á síðustu 12 mánuðum. Ef húsnæðisliðurinn hefði ekki verið inn í neysluvísitölunni til reikningar á verðtryggðum skuldum heimilanna þá hefðu þær lækkað um 10 milljarða! Hér er mismunur uppá 46 milljarða heimilunum í óhag!!!

Á þessu sést hversu mikið hagsmunamál er hér á ferðinni fyrir íslenska neytendur og núna er ekkert annað en í stöðunni en að stjórnvöld og Alþingi hlusti á kröfu þings ASÍ og taki húsnæðisliðinn út úr mælingunni hvað verðtryggðar skuldir heimilanna varðar og það strax eftir kosningar. Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun fylgja þessari áskorun frá þingi ASÍ fast eftir!

Tillaga sem samþykkt var á þingi ASÍ hljóðaði með eftirfarandi hætti: „42. þing Alþýðusambands Íslands skorar á stjórnvöld og Alþingi að vísitala til neysluverðs til verðtryggingar skv. lögum um vexti og verðtryggingu verði hér eftir reiknuð út án húsnæðisliðar.“

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image