• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Feb

Verslum með krónum, ekki prósentum

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands mun koma saman til fundar hjá ríkissáttasemjara kl.11 í dag þar sem farið verður yfir stöðuna og næstu skref. Eins og fram hefur komið í fréttum þá hefur Starfsgreinasamband Íslands lagt fram sanngjarna og réttláta kröfugerð sem byggist á því að almennt verkafólk geti framfleytt sér og sínum á dagvinnulaunum og haldið mannlegri reisn. 

Krafan byggist á því að lágmarkslaun hækki jafnt og þétt og verði innan þriggja ára komin upp í 300.000 kr. Þetta er sáttarhönd sem Starfsgreinasambandið hefur rétt Samtökum atvinnulífsins, sáttarhönd sem gengur út á það að jafnt og þétt verði stigin skref í átt til þess að lágmarkslaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út en slíku er alls ekki til að dreifa í dag. 

Ugglaust verður rætt á þessum fundi hvað gera skuli í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að Samtök atvinnulífsins hafa alfarið hafnað þessari sanngjörnu kröfu og eru við sama heygarðshornið um að allt fari til fjandans í íslensku samfélagi ef að verkafólki verða réttar einhverjar kjarabætur sem heitið geta. Það liggur fyrir að áróðursmaskína Samtaka atvinnulífsins er afar vel smurð og því haldið fram að lágtekjufólk hafi fengið mestu hækkanirnar í gegnum árin og benda menn á prósentuhækkanir í því samhengi. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá blekkja prósentur enda getur hátekjumaður sem fær 150.000 kr. launahækkun á mánuði fengið minni hækkun heldur en verkamaður sem fær 20.000 kr. hækkun og takið eftir, í prósentum. En kjarni málsins hlýtur að vera sá að 150.000 kr. launahækkun er hærri heldur en 20.000 kr. launahækkun. Prósentur blekkja og eru til þess fallnar að dýpka og auka hér misskiptingu og óréttlæti í íslensku samfélagi. Við verslum ekki með prósentum heldur íslenskum krónum.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image