• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Dec

Jólafundur stjórnar og trúnaðarráðs VLFA

Hinn árlegi jólafundur stjórnar- og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn á morgun þar sem farið verður yfir liðið ár og þau hörkuátök sem framundan eru hvað kjarasamningsgerð varðar enda eru margir helstu kjarasamningar félagsins lausir eða að losna um þessar mundir. Fundurinn verður haldinn á Gamla Kaupfélaginu og eins og ætíð er góð mæting enda skiptir miklu máli fyrir alla aðila að fylgjast vel með því sem framundan er því gríðarlega mikilvægt er að menn séu vel upplýstir um þau atriði er lúta að komandi kjarasamningum og þeim átökum sem hugsanlega kunna að fylgja.

Þetta er búið að vera viðburðaríkt ár sem verður gert grein fyrir. Meðal annars hvatti Verkalýðsfélag Akraness allt verkafólk til að fella kjarasamningana sem voru gerðir 21. desember 2013 og er formaður ekki í neinum vafa um að hækkun orlofs- og desemberuppbóta um 32.300 kr. má þakka staðfestu Verkalýðsfélags Akraness og nokkurra annarra félaga. Það er ljóst að þessi ávinningur hefði ekki komið til ef þessi félög hefðu ekki staðið í lappirnar. Vissulega vildu menn svo sannarlega sjá meiri launahækkanir til handa íslensku verkafólki í síðustu samningum en því miður tókst það ekki. En rétt er að benda á að þessi hækkun orlofs- og desemberuppbótar er ígildi um 1,3 milljarða kostnaðarauka fyrir atvinnulífið ef bara er horft á þá 100.000 félagsmenn sem tilheyra ASÍ.

Það er alveg ljóst að komandi kjarasamningar munu reyna mikið á íslenska verkalýðshreyfingu því það er ekki hægt að láta það átölulaust að verkafólk sé með grunnlaun frá 201.000 kr. upp í 229.000 kr. Þetta eru laun sem eru langt undir öllum framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og morgunljóst að þessa launataxta þarf að hækka allverulega. Formaður félagsins tekur undir með fyrrverandi forstljóra N1 sem sagði í útvarpsviðtali ekki alls fyrir löngu að fyrirtæki sem ekki geta greitt dagvinnulaun sem nema um 300.000 kr. eiga vart tilverurétt á íslenskum vinnumarkaði. Eins og allir vita þá gengur fyrirtækjum í útflutningsgreinum mjög vel. Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja nemur þetta í kringum 40-60 milljörðum á ári, arðgreiðslur flæða úr greininni til eigenda án þess að það skili sér til þeirra sem skapa hagnaðinn sem er fiskvinnslufólkið. Hagnaður Norðuráls var mjög góður á síðastliðnu ári og er ljóst að í þeim kjaraviðræðum sem nú eru hafnar við Norðurál verður svo sannarlega látið sverfa til stáls þegar kemur að því að starfsmenn fái ríkari hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækisins heldur en verið hefur.

Verkaýðsfélag Akraness er klárt í átök í komandi kjarasamningum og mun stjórn og trúnaðarráð meðal annars fara yfir alla þessa þætti á fundinum á morgun.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image