• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Jun

Akraneskaupstaður leiðréttir laun upp á 5,7 milljónir

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur gengið frá samkomulagi við Akraneskaupstað vegna leiðréttingar á launum skólaliða í Brekkubæjarskóla og Grundaskóla. Málið laut að því að þegar Verkalýðsfélag Akraness fór að skoða mál er tengjast aðalhreingerningum skólaliða, en þær eru framkvæmdar eftir að skólanum lýkur ár hvert, kom í ljós að skólaliðar voru ekki að fá álagsgreiðslu sem nemur 55% af dagvinnutaxta vegna aðalhreingerninga eins og kveðið er á um í kjarasamningi á milli VLFA og Akraneskaupstaðar. Félagið gerði því athugasemdir vegna þessarar vangreiðslu við forsvarsmenn Akraneskaupstaðar og átti formaður nokkra fundi með bæjarstjóra og forsvarsmönnum bæjarins til að finna lausn á þessum ágreiningi. Eftir að bæjaryfirvöld höfðu skoðað málið og komist að því að þessi athugsemd VLFA var á rökum reist þá náðist samkomulag um lausn á málinu.

Samkomulagið fól það í sér að skólaliðar munu fá 55% álag vegna aðalræstinga endurgreitt fjögur ár aftur í tímann og nemur sú endurgreiðsla tæpum 200 þúsundum fyrir þá sem eiga fullan rétt, en í heildina nemur þessu endurgreiðsla til allra skólaliða um 5,7 milljónum króna. Auk þess var samið um viku í viðbótarorlof handa skólaliðum í fullu starfi. Formaður kynnti samkomulagið fyrir félagsmönnum sínum í Brekkubæjarskóla í gær og voru starfsmenn mjög ánægðir með þetta samkomulag. Verkalýðafélag Akraness vill þakka bæjaryfirvöldum fyrir að sameiginleg lausn hafi fundist á þessu máli ,enda byggðist vangreiðslan á vissum misskilningi og var alls ekki um neinn ásetning að ræða. 

Þetta er ekki eina málið sem fékk farsæla niðurstöðu í gær því félagið var með annað mál í vinnslu hjá sér sem laut að ofgreiðslu sem starfsmaður Hvalfjarðarsveitar hefði fengið upp á tæpar 150 þúsund krónur, en hafði síðan verið dregin af honum. Slíkt er óheimilt ef starfsmaðurinn er í góðri trú um að laun hans séu rétt og hann er algerlega grandalaus um að um ofgreiðslu væri að ræða. Verkalýðsfélag Akraness óskaði eftir því að Hvalfjarðarsveit myndi endurgreiða það sem hafði verið dregið af starfsmanninum og vísaði félagið í dómafordæmi máli sínu til stuðnings. Eftir að málið hafði verið skoðað af sveitarstjóra var fallist á rök VLFA og starfsmanninum endurgreidd sú upphæð sem um var að ræða.

Þetta sýnir hversu mikilvæg stéttarfélögin eru þegar kemur að því að verja og varðveita þau réttindi sem um hefur verið samið og félagsmenn eiga rétt á.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image