• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
95 starfsmenn Norðuráls hafa útskrifast úr stjóriðjuskóla Norðuráls Frá útskrift stóriðjuskólans í gær
20
May

95 starfsmenn Norðuráls hafa útskrifast úr stjóriðjuskóla Norðuráls

Árið 2011 samdi Verkalýðsfélag Akraness við forsvarsmenn Norðuráls um  stofnun stóriðjuskóla og það er óhætt að segja að þar hafi verið stigið mikið heillaspor að setja þennan skóla á laggirnar, ekki bara fyrir starfsmenn heldur einnig fyrirtækið. Það er morgunljóst að námið eykur færni og hæfni starfsmanna til muna og því til viðbótar er einnig fjárhagslegur ávinningur fyrir starfsmenn að fara í námið.

Grunnnám stóriðjuskólans er þrjár annir og gefur þeim starfsmönnum sem því ljúka launahækkun upp á 5%. Framhaldsnám skólans gefur svo 5% til viðbótar. Með öðrum orðum þá skilar námið ekki bara aukinni færni og hæfni nemenda heldur getur það skilað 10% launahækkun að afloknu grunn- og framhaldsnámi og nemur sá ávinningur um eða yfir 70 þúsundum króna á mánuði. Rétt er að geta þess líka að í stóriðjuskólanum öðlast starfsmenn aukna færni og þekkingu á lykilferlum við örugga og hagkvæma framleiðslu á áli. Þannig er rétt að ítreka enn og aftur að það er bæði hagur starfsmanna og fyrirtækisins að hafa þetta nám innan Norðuráls. Námið fer fram í húsakynnum Norðuráls á Grundartanga og koma kennarar frá Fjölbrautaskóla Vesturlands og einhver námskeið eru haldin á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands.
Glæsilegur hópur útskriftarnemaÍ gær útskrifaðist enn einn hópurinn úr stóriðjuskólanum en það voru 15 starfsmenn sem luku grunnnáminu og í heildina hafa 62 starfsmenn lokið grunnáminu frá því skólinn var settur á laggirnar. Í gær útskrifuðust líka starfsmenn í framhaldsnáminu og í heildina hafa 33 lokið framhaldsnáminu. Þetta þýðir að 95 starfsmenn hafa samtals lokið grunn- og framhaldsnámi úr stóriðjuskóla Norðuráls frá því hann hóf starfsemi sína.  

Það er óhætt að segja að útskriftarathöfnin sem haldin var í gær hafi verið öll hin glæsilegasta og mega starfsmenn og forsvarsmenn fyrirtækisins vera stoltir af allri umgjörð í kringum útskriftina enda skein mikil ánægja úr andlitum ústkriftarnema. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness sendir þeim sem útskrifuðust í gær innilegar hamingjuóskir með þennan glæsilega áfanga.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image