• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Jan

Algjörlega árangurslausir fundir með Norðuráli

Í gær var haldinn í húsakynnum Ríkissáttasemjara sjötti samningafundurinn í kjaradeilu stéttarfélaganna gagnvart Norðuráli, en deiluaðilar vísuðu deilunni til ríkissáttasemjara fyrir skemmstu. Þetta var annar fundurinn undir handleiðslu sáttasemjara og það er skemmst frá því að segja að himinn og haf er á milli deiluaðila.

Á þessari stundu er fátt sem bendir til þess að lausn finnist á deilunni á næstu vikum, enda hvellskýrt að algjör hugarfarsbreyting þarf að verða hjá forsvarsmönnum Norðuráls ef þessi deila á að leysast. Það liggur fyrir að starfsmenn og stéttarfélög munu sækja fram leiðréttingar á kjörum starfsmanna af fullum þunga, en nánast öllum kröfum stéttarfélaganna hefur verið hafnað. Það er í raun og veru nöturlegt til þess að vita að fyrirtæki eins og Norðurál, sem er eitt öflugasta fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði og hefur skilað hagnaði nánast hvert einasta ár frá því það hóf starfsemi, hefur búið við góð rekstrarskilyrði og er með einn lægsta launakostnaðinn miðað við heildarveltu á íslenskum vinnumarkaði, skuli ekki geta gert betur en raun ber vitni.

Það má segja að þetta gildi um allar stóriðjurnar á Íslandi sem hafa búið við góð rekstrarskilyrði og þó sérstaklega eftir hrun íslensku krónunnar, en þessum ávinningi hefur á engan hátt verið deilt með starfsmönnum. Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur ætíð talað um að íslenskum fyrirtækjum séu sköpuð góð rekstrarskilyrði sem eigi að leiða það að verkum að fyrirtæki geti gert betur gagnvart sínum starfsmönnum en ella. En því miður hefur þessu ekki verið til að dreifa, ef horft er í heildina yfir öll útflutningsfyrirtæki á Íslandi sem búa um þessar mundir við gríðarlega jákvæð skilyrði.

Eins og áður sagði er það morgunljóst að hvergi verður hvikað frá í þessari baráttu. Það mun engu breyta þótt það taki tíma, því samstaða og einurð starfsmanna í baráttunni fyrir bættum kjörum er alger, og það skiptir stéttarfélögin gríðarlega miklu máli að finna þann mikla baráttuanda sem ríkir meðal starfsmanna. Næsti fundur hefur verið boðaður næsta þriðjudag, og það liggur algerlega fyrir að ef ekki verður hugarfars- og stefnubreyting af hálfu forsvarsmanna Norðuráls þá verður viðræðum við fyrirtækið slitið, enda er ekkert í tilboði Norðurálsmanna sem gefur tilefni til frekari viðræðna. Á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku mun Verkalýðsfélag Akraness boða til fundar í Bíóhöllinni Akranesi þar sem starfsmönnum verður gerð grein fyrir gangi viðræðna með ítarlegum hætti, og til hvaða ráðstafana verður hægt að grípa. En samkvæmt kjarasamningnum opnast verkfallsréttur ekki fyrr en eftir þrjá mánuði og síðan líða nokkrir mánuðir þar til hann fer að virka samkvæmt kjarasamningi. En það er ljóst, eins og áður sagði, að ekki kemur annað til greina en að kjör starfsmanna Norðuráls verði bætt svo um munar í komandi kjarasamningum, bæði vegna frábærrar afkomu fyrirtækisins í gegnum árin, og ekki síður vegna þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið að undanförnu, kjarasamninga sem í sumum tilfellum eru að gefa starfsmönnum langt yfir 30%.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image