• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Mar

Verkalýðsfélag Akraness stendur vel fjárhagslega sem félagslega

Eins og fram hefur komið hér á heimsíðu félagsins þá verður aðalfundur félagsins haldinn 5. apríl næstkomandi. Undirbúningur fyrir aðalfundinn stendur nú yfir en í gær komu allar stjórnir sjóða félagsins saman og undirrituðu ársreikninginn eftir að endurskoðandi félagsins hafði farið ítarlega yfir hann.

Það er óhætt að segja að Verkalýðsfélag Akraness standi gríðarlega vel ekki bara félagslega heldur einnig fjárhagslega en heildarsamstæða félagsins var jákvæð samkvæmt ársreikningi um rétt tæpar 110 milljónir og jukust iðgjöld félagsins um rétt tæp 20% á milli ára. En það endurspeglast af því að félagið náði mjög góðum kjarasamningum til handa sínum félagsmönnum á síðasta ári og sem dæmi þá hækkuðu laun fiskvinnslufólks sem starfar hjá HB Granda um 27,5% á síðasta ári og laun stóriðjumanna hjá Norðuráli um 16%. Það sem einnig hefur áhrif á tekjur félagsins er að félagsmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt og á síðasta ári fjölgaði þeim um 5% og er heildarfjöldi félagsmanna rétt tæplega 3000.

Verkalýðsfélag Akraness greiddi uppundir 70 milljónir á síðasta ári í hina ýmsu styrki úr sjúkrasjóði félagsins og einnig er rétt að geta þess að VLFA var nánast eina félagið innan Starfsgreinasambands Íslands sem greiddi félagsmönnum sínum verkfallsbætur vegna tveggja daga verkfalls á síðasta ári en félagið greiddi um 6 milljónir í verkfallsbætur.

Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að láta félagsmenn ætíð njóta þess þegar afkoma félagsins er góð og á þeirri forsendu ákvað stjórn félagsins að hækka þrjá af styrkjum félagsins myndarlega eða um rúm 20%.  Eftir 5. apríl þá mun fæðingarstyrkurinn hækka um 21% og verður 85.000 kr. og ef báðir foreldrar eru félagsmenn þá er styrkurinn samanlagður 170.000 kr.  Einnig munu heilsueflingar-og heilsufarsskoðunarstyrkirnir hækka hvor um sig um 20% og verða 25.000 kr. hvor fyrir sig eftir 5. apríl.

Það er einnig óhætt að segja að gríðarlegur viðsnúningur hafi átt sér stað frá því núverandi stjórn tók við 19. nóvember 2003 en á þessum árum hefur félagið tekið algjörum stakkaskiptum og sem dæmi þá var félagssjóður rekinn á yfirdrætti og peningalegar innistæður annarra sjóða félagsins voru afar takmarkaðar en í dag er félagið mjög fjárhagslega sterkt og tilbúið að takast á við mörg brýn hagsmunamál sem oft á tíðum kosta mikil fjárútlát. Í dag er félagið t.d. með þrjú mál fyrir dómstólum þar sem verið er að láta reyna á ágreining við atvinnurekendur um túlkun á kjarasamningum og einnig mál  vegna vangreiddra launa.

Það er og verður stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að vera það félag sem reynir ætíð að bjóða félagsmönnum sínum bestu réttindi og þjónustu sem í boði er á meðal stéttarfélaga hér á landi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image