• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Mar

Mikið annríki á skrifstofu VLFA undanfarna viku

Það er óhætt að segja að það sé búið að vera líf og fjör á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness í þeirri viku sem nú er senn á enda. Vikan byrjaði með látum þar sem þriggja daga trúnaðarmannanámskeið var haldið í fundarsal félagsins. 9 trúnaðarmenn tóku þátt til að fræðast og gera sig hæfari til að geta gegnt því viðamikla verkefni sem er að vera trúnaðarmaður á sínum vinnustað. Í þessari viku er einnig búið að vera mikið að gera við skattframtalsaðstoð en eins og undanfarin ár hefur félagið boðið félagsmönnum sinum aðstoð við gerð skattframtals. Hafa fjölmargir félagsmenn nýtt sér þessa þjónustu og meirihlutinn eru félagsmenn sem hafa íslensku ekki að móðurmáli. 

Undirbúningur hefur verið á fullu fyrir aðalfund félagsins sem haldinn verður 5. apríl en verið er að ganga frá reikningum félagsins og öðrum undirbúningi sem lýtur að aðalfundi en eins og undanfarin ár er Verkalýðsfélag Akraness gríðarlega sterkt, bæði fjárhagslega sem og félagslega. Hefur félagsmönnum fjölgað á árinu, í heildina eru uppundir 3.000 manns í félaginu en þeim fjölgaði um 5% milli ára. Félagið vinnur nú að því að láta reyna á réttindi félagsmanna fyrir dómstólum og undirbýr stefnu á hendur Norðuráli vegna túlkunar á kjarasamningi. Að öllum líkindum mun stefnan verða klár um eða eftir páska. Það er stefna félagsins að ef ágreiningur er á milli atvinnurekanda og félagsins um túlkun á kjarasamningi og ekki næst sátt við atvinnurekendur að félagið láti skýlaust á slikt reyna fyrir dómstólum. Það er og hefur verið stefna Verkalýðsfélags Akraness að berjast í hvívetna fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna og verja þau réttindi sem félagsmenn hafa með öllum þeim tiltæku ráðum sem félagið hefur. 

Þessu til viðbótar er nú unnið að því að senda út orlofsbæklinga og umsóknir til félagsmanna vegna sumarsins. Boðið verður upp á sambærilega valkosti og í fyrra, meðal annars munu Framsýn á Húsavík og VLFA aftur skipta á bústöðum, VLFA fær Illugastaði af Framsýn og Framsýn fær í staðinn Bláskóga í Svínadal af VLFA. Jafnframt verður áfram boðið upp á sumarhús í Vestmannaeyjum en það nýtur mikilla vinsælda hjá félagsmönnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image