• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Jan

Félagsdómur mun taka SALEK málið fyrir 27. janúar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá þurfti Verkalýðsfélag Akraness að vísa kjaradeilu sinni við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna samnings félagsins við Akraneskaupstað til Félagsdóms. Ástæðan er sú að Samband íslenskra sveitarfélaga gerði þá skýlausu kröfu á VLFA að svokallað SALEK samkomulag skyldi fylgja með kjarasamningnum sem fylgiskjal. Þetta gat Verkalýðsfélag Akraness á engan hátt sætt sig við, einfaldlega vegna þess að í SALEK samkomulaginu eru ákvæði þar sem samningsréttur félagsins, til dæmis hvað aðra kjarasamninga varðar, er skertur verulega. Til dæmis er skýrt kveðið á um í SALEK samkomulaginu að tekið verði upp svokallað þjóðhagsráð eftir árið 2018 og þetta þjóðhagsráð muni ákveða hverjar launabreytingar í kjarasamningum geta að hámarki orðið. Það er líka skýrt kveðið á um í SALEK samkomulaginu að stéttarfélögunum verði skylt að halda sig innan þess svigrúms sem þjóðhagsráð ákvarðar á hverjum tíma fyrir sig. 

Þetta er klárt brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur enda liggur fyrir að samningsumboð liggur hjá stéttarfélögunum og því er það mat félagsins að þann samningsrétt sé ekki hægt að skerða með þeim hætti sem nú er stefnt að. Enda er það ekki frjáls samningsréttur ef þjóhagsráð ákvarðar til dæmis að launabreytingar geti orðið að hámarki 3% og félaginu sé þá skylt að semja innan þess svigrúms algjörlega óháð getu þeirra fyrirtækja og atvinnugreina sem eru á félagssvæði VLFA. Það er ekki bara að þetta sé brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur heldur er þetta líka brot á 74. grein stjórnarskrárinnar að mati félagsins. Það er ótrúlegt að Alþýðusamband Íslands skuli vera að taka þátt í SALEK samkomulaginu enda er samningsréttur stéttarfélaganna hornsteinn stéttarfélagsbaráttu á Íslandi. Tilvist stéttarfélaga verður verulega ógnað ef þetta SALEK samkomulag verður að veruleika þar sem völd til launabreytinga verða færð yfir á fámenna valdaelítu.

Nú liggur fyrir að aðalmeðferð í þessu máli fyrir Félagsdómi verður 27. janúar og verður afar fróðlegt að sjá hver niðurstaðan í þessu máli verður en formaður félagsins hefur lúmskan grun um að Samband íslenskra sveitarfélaga muni reyna ítrekað að fá málinu vísað frá Félagsdómi því það er hans tilfinning að þessir aðilar vilji ekki fá efnislega niðurstöðu í málið. Það verður hinsvegar að koma í ljós hvort þær grunsemdir eigi við rök að styðjast og mun félagið mæta því ef svo ber undir. Hér er um eitt mesta hagsmunamál að ræða sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir því það má ekki undir nokkrum kringumstæðum gerast að samningsréttur stéttarfélaganna verði skertur eins og hugmyndir eru um í þessu SALEK samkomulagi. Það er líka rétt að geta þess að það er enginn ágreiningur milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Verkalýðsfélags Akraness um launabreytingar í samningnum heldur er það einungis þessi óbilgjarna krafa um að félagið samþykki SALEK samkomulagið sem fylgiskjal sem gerir það að verkum að ekki er hægt að ganga frá kjarasamningi fyrr en niðurstaða liggur fyrir hjá Félagsdómi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image