• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Jan

HB Grandi lækkar kostnað vegna nettengingar sjómanna

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur Verkalýðsfélag Akraness verið að vinna að því að fá netkostnað sjómanna lækkaðan og hefur félagið meðal annars átt í góðum samskiptum við forsvarsmenn HB Granda hvað þau mál varðar. Hefur formaður meðal annars átt nokkra fundi með þeim og leiddu þeir til þess að fyrirtækið hefur verið að leita leiða til þess að ná niður þessum kostnaði. Eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hefur umtalsverðrar gremju gætt hjá sjómönnum vegna þess mikla kostnaðar sem þeir hafa þurft að greiða vegna internetnotkunar. Það er  afar ánægjulegt að fyrirtækið hefur nú brugðist við þessu erindi með það að markmiði að bæta þjónustuna og lækka kostnaðinn en slíkar aðgerðir hafa nú verið tilkynntar bæði sjómönnum og VLFA. Þetta er jákvætt skref sem hér hefur verið stigið af hálfu forsvarsmanna HB Granda.  

Í tilkynningu sem forsvarsmenn HB Granda hafa sent bæði áhafnarmeðlimum á skipum sínum og Verkalýðsfélagi Akraness kemur fram að þeir vonist til þess að þessi tilraun skili sér í lækkuðum kostnaði og bættu aðgengi sjómanna að 3G/4G sambandi. Einnig kemur fram í tilkynningunni að þeir séu stöðugt að vinna í því að bæta þá þjónustu sem sjómönnum stendur til boða og að búast megi við frekari þróun í þá átt á næstu mánuðum.

Hér að neðan er tilkynningin sem send var til VLFA og sjómanna HB Granda:

Tilkynningin:

Undarfarna mánuði hafa netmál áhafna verið til umræðu innan fyrirtækisins. Til skoðunnar hafa verið hugmyndir sem miða að því að lækka kostnað áhafnarmeðlima við netnotkun en jafnframt tryggja að sambandið sé eins gott og hægt er. Þrátt fyrir að ákveðin niðurstaða sé komin í málið nú verður áfram unnið að því að bæta þá þjónustu sem er í boði án þess að kostnaður hækki. Hér að neðan er upptalning á helstu breytingum sem gerðar eru frá áramótum og þær hugmyndir sem unnið er að:

1.       Til að tryggja hóflega notkun á interneti gegn vægu gjaldi fær hver sjómaður 1GB á mánuði án kostnaðar. Þetta gagnamagn verður ekki færanlegt milli mánaða eða skipverja. Allt gagnamagn umfram 1GB mun áfram bera gjald upp á 10 kr/mb.

2.       Gerðar verða tilraunir um borð í Sturlaugi með netsenda. Þeim er ætlað að dreifa hefðbundnu 3G neti sem símafyrirtækin bjóða upp á um allt skip. Þegar skip er í 3G sambandi(ekki  3G sjósamband) ættu skipverjar að geta nýtt þjónustu síns símafyrirtækis um allt skip í stað takmarkaðra svæða eins og nú er. Ef þetta gefur góða raun verður þetta sett upp í fleiri skipum, ef þetta gengur ekki verða frekari möguleikar kannaðir. Til upplýsinga þá bíður núverandi netkerfi skipana ekki upp á aðskilnað í innheimtu notkunnar vegna 3G og gervihnattar, því er innheimt eitt gjald óháð tengingu.

3.       Verið er að kanna tæknilega möguleika á að slíta nettengingu með tilteknu millibili, t.d 6 tíma fresti. Þá þarf viðkomandi að skrá sig inn aftur og fær þá upplýsingar um stöðu á gagnamagni.

4.       Óskað hefur verið eftir einföldum ráðleggingum til skipverja frá þjónustuaðila um hvernig má minnka notkun gagnamagns á sjó.

5.       Hafið í huga að langstærstur hluti gagnamagns kemur frá samskiptamiðlinum Facebook. Við ráðleggjum því eindregið að menn notist við m.facebook.com og hugi vel að gagnastillingum vefsíðunnar og símtækja sinna.

Verkalýðsfélag Akraness ítrekar það að gott er að forsvarsmenn HB Granda séu að vinna markvisst að því að lækka þennan kostnað og bæta aðgengi sjómanna að internetinu enda liggur fyrir að það er mikilvægt fyrir sjómenn að hafa þessa þjónustu til að geta verið í samskiptum við umheiminn og fylgst vel með því sem er að gerast um hina víðu veröld. Samstarf félagsins við forsvarsmenn HB Granda í þessu máli hefur verið til mikillar fyrirmyndar og það er ætíð gott þegar fyrirtæki bregðast við með jákvæðum hætti svo ekki sé talað um að fyrirtækið ætlar að þróa þessi mál enn frekar með hagsmuni sjómanna að leiðarljósi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image