• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
SALEK samkomulagið mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir launafólk Frá undirritun SALEK samkomulagsins
13
Jan

SALEK samkomulagið mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir launafólk

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá vísaði Verkalýðsfélag Akraness ágreiningi sínum vegna svokallaðs rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins, nánar tiltekið SALEK samkomulagsins, til Félagsdóms. Félagið vill fá úr því skorið hvort það standist lög um stéttarfélög og vinnudeilur sem og stjórnarskrá Íslands að hægt sé að gera samkomulag sem hefur það markmið að rýra frjálsan samningsrétt stéttarfélaga.

Þessu máli hafa margir sýnt mikinn áhuga og nú síðast fékk lögmaður félagsins ósk frá kennurum við Háskóla Reykjavíkur sem kenna vinnurétt um að fá aðgang að stefnunni og ætlar viðkomandi kennari að mæta með nemendur sína í dómssal 27. janúar næstkomandi þegar málflutningurinn fer fram fyrir Félagsdómi. Það liggur algjörlega fyrir að hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir íslenska launþega enda er skýrt kveðið á um í rammasamkomulaginu að sett verði á laggirnar þjóðhagsráð sem hafi það markmið að meta hvert svigrúm til launabreytinga getur orðið þegar kjarasamningar eru lausir. Það kemur líka hvellskýrt fram í rammasamkomulaginu að stéttarfélögunum verður skylt að halda sig innan þess svigrúms sem þjóðhagsráð ákvarðar á hverjum tíma fyrir sig.

Hvernig í himninum getur það talist frjáls samningsréttur að fela einhverju þjóðhagsráði að ákvarða hverjar hámarks launabreytingar mega vera? Þetta er eins og áður sagði algjörlega andstætt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og einnig meðal annars 2. málsgrein 75. greinar stjórnarskrárinnar. Það er hinsvegar með ólíkindum að forysta Alþýðusambands Íslands ætli sér á 100 ára afmæli sambandsins að vinna að því að þessi hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar, sem er frjáls samningsréttur, verði virtur að vettugi eða í það minnsta stórlega skertur. Það er mat lögmanns félagsins að það sé andstætt lögunum og stjórnarskránni að semja um slíka skerðingu á samningsréttinum. En nú er æði margt sem bendir til þess að forysta Alþýðusambands Íslands sé einnig að vinna að því leynt og ljóst við endurskoðun kjarasamninga að rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins verði meitlað í það samkomulag.

Eins og áður sagði er samningsfrelsið hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar á Íslandi og má ekki undir nokkrum kringumstæðum skerða þann rétt. Það er með ólíkindum að búið sé að ákveða hverjir muni sitja í þessu þjóðhagsráði en í fylgiskjali sem ríkisstjórnin gaf út til að liðka fyrir kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamninga 2015 var einmitt fjallað um hverjir muni sitja í þjóðhagsráði. Þeir sem eru tilgreindir til að eiga aðild að því eru oddvitar ríkisstjórnar á hverjum tíma (nú forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra) og fulltrúar Seðlabanka Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands og sameiginlegur fulltrúi samtaka launþega á opinberum vinnumarkaði. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni sem ber heitið Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 2015.

Já, hugsið ykkur að þjóðhagsráð sem á að ákvarða hverjar launabreytingar meðal annars verkafólks, iðnaðarmanna og annarra eiga að vera í hvert sinn sem kjarasamningar eru lausir samanstandi af fimm fulltrúum launagreiðenda en launafólk hafi tvo fulltrúa - einn frá ASÍ sem væntanlega verður forseti Alþýðusambandsins og einn frá opinberu stéttarfélögunum. Formaður biður íslenskt launafólk að átta sig á því skemmdarverki sem hér er verið að reyna að vinna þar sem markvisst er unnið að því að taka samningsréttinn hægt og bítandi af íslensku launafólki og færa hann yfir á gráðuga valdaelítu. Formaður hefur trú á því að fólk átti sig ekki almennilega á því hverju er verið að vinna að á bakvið tjöldin. En grundvallaratriðið er að eins og lögum um stéttarfélög og vinnudeilur er háttað í dag sem og stjórnarskránni þá er óheimilt að skerða samningsréttinn með þeim hætti sem menn hafa í hyggju að gera. Nægir að nefna í því samhengi að hæstiréttur hefur margoft fjallað um samningsrétt stéttarfélaga og launamanna en í niðurstöðu hæstaréttar í máli er laut að kjarasamningi smábátasjómanna árið 2015 segir meðal annars um samningsfrelsið:

Í samningsrétti gildir grundvallarreglan um samningsfrelsi en í henni felst að aðilar ráða efni samnings sín á milli. Þessi regla gildir meðal annars á vinnumarkaði. Á þeim vettvangi er samningsfrelsið jafnframt varið af 2. mgr. 75 gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að löggjafanum ber með lögum að kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Að þessu gættu verður að koma ótvírætt fram í lögum ef ákvæði þeirra eiga að vera ófrávíkjanleg við gerð kjarasamninga.

Skýrara verður það ekki frá hæstarétti en forysta Alþýðusambandsins er nú ekki mikið að hlusta á hæstarétt sem margoft hefur fjallað um lögbundinn, frjálsan samningsrétt stéttarfélaga. Nei, hún ætlar að gefa launamönnum það í afmælisgjöf á 100 ára afmæli sambandsins að samningsrétturinn verði skertur. Hafi menn ævarandi skömm fyrir að verið sé að vinna á slíkri vegferð sem mun koma illilega niður á íslensku launafólki til lengri tíma litið ef menn ná að koma þessu máli í gegn með því ofbeldi sem unnið er með. Það er mat formanns þó vissulega séu það stór orð að ef þetta SALEK samkomulag verður að veruleika þá sé þetta nánast landráð gagnvart íslenskum launþegum.

Eitt er víst, að Verkalýðsfélag Akraness mun reyna eins og það getur að brjóta þessa fyrirætlan á bak aftur en formaður vill samt ítreka að það er erfitt, já mjög erfitt, fyrir eitt stéttarfélag að standa í slíkri baráttu gegn þessum miklu öflum sem ráða íslenskum vinnumarkaði. Til þess að þetta mál sigrist þurfa launamenn að kynna sér þessi mál vel og rækilega og láta sitt stéttarfélag ekki komast upp með að samningsrétturinn verði fótum troðinn en hann er eins og áður sagði búinn að vera hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar í gegnum árin og áratugina.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image