• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Jan

Skoðanakönnun leiddi í ljós að 81,8% sjómanna vilja að hafinn sé undirbúningur verkfalls

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þann 22. desember þá sendi Verkalýðsfélag Akraness öllum sjómönnum í sjómannadeild félagsins skoðanakönnun þar sem óskað var eftir afstöðu til þess hvað yrði gert vegna stöðunnar í 5 ára erfiðri kjaradeilu við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Kjarasamningur sjómanna hefur verið laus frá 1. janúar 2011 og er verulegrar óþreyju farið að gæta hjá íslenskum sjómönnum. Valmöguleikarnir sem voru í boði voru eftirfarandi:

- Óbreytt ástand, þ.e. samningar lausir áfram.
- Semja um hækkun kauptryggingar, launaliða og þrjú atriði önnur.
- Undirbúa verkfallsaðgerðir.

Það er skemmst frá því að segja að skoðanakönnunin skilaði afdráttarlausri niðurstöðu. 81,8% af þeim sem tóku þátt vildu hefja undirbúning verkfallsaðgerða en 18,2% vildu semja um hækkun kauptryggingar og launaliða. Enginn vildi óbreytt ástand.

Það er alveg ljóst að þolinmæði sjómanna er greinilega að þrotum komin og ekki að ástæðulausu. Því miður hefur gætt mikillar óbilgirni af hálfu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í þessum viðræðum við Sjómannasamband Íslands en kröfur sjómanna eru sanngjarnar og réttlátar. Þær samanstanda í meginatriðum af þremur þáttum. Þeir eru að tekið verði á verðlagsmálum á sjávarafurðum, að komið verði skikki á mönnunarmál um borð í fiskiskipum en að undanförnu hafa útgerðir fækkað umtalsvert um borð í uppsjávarskipum og telja margir sjómenn að öryggi og velferð þeirra sé orðið ógnað vegna þessarar fækkunar og í þriðja lagi vilja sjómenn eðlilega fá leiðréttingu vegna afnáms sjómannaafsláttar en hann var tekinn af sjómönnum í þrepum á undanförnum árum.

Sjómannasamband Íslands fer með samningsumboð fyrir Verkalýðsfélag Akraness eins og öll önnur stéttarfélög á landinu og mun formaður nú koma þessum skilaboðum til Sjómannasambands Íslands en formaður VLFA telur að verið sé að gera sambærilegar kannanir vítt og breitt um landið til að kanna afstöðu sjómanna til hvaða aðgerða á að grípa. Ef niðurstaða verður með sambærilegum hætti í öðrum sjómannafélögum er ljóst að það getur farið að draga til tíðinda hvað varðar verkfallsaðgerðir sjómanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image