• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Jan

SALEK málið tekið fyrir á miðvikudaginn fyrir Félagsdómi

Á miðvikudaginn næstkomandi mun Félagsdómur taka fyrir mál Verkalýðsfélags Akraness vegna svokallaðs SALEK samkomulags. En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur Samband íslenskra sveitarfélaga gert þá skýlausu kröfu að til að Verkalýðsfélag Akraness fái að njóta þeirra launabreytinga sem eru í boði þá þurfi SALEK samkomulagið í heild sinni að fylgja með sem fylgiskjal við kjarasamninginn en slíku hefur Verkalýðsfélag Akraness alfarið hafnað enda er félagið sannfært um að svokallað rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 27. október sé gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og stjórnarskránni.

Eins og flestir vita undirritaði forseti ASÍ fyrir hönd sambandsins rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins 27. október 2015 og er það mat VLFA að forsetinn hafi ekki haft neitt umboð til að undirrita umrætt samkomulag. Samkomulag sem skuldbindur aðildarfélög ASÍ til að ákvarða launabreytingar allt til ársins 2018 sem og afsala sér endurskoðun kjarasamninga svo ekki sé talað um að sett verði á laggirnar nýtt vinnumarkaðslíkan þar sem skipað verði svokallað þjóðhagsráð sem mun ákvarða allar hámarks launabreytingar og að stéttarfélögunum verði skylt að vera innan þess svigrúms eins og kveðið er á um í samkomulaginu. Nánast engin umræða fór fram um þetta rammasamkomulag, ekki var kallað eftir neinu umboði af hálfu VLFA hvað samkomulagið varðaði og fékk Starfsgreinasamband Íslands munnlega kynningu nokkrum mínútum áður en samkomulagið var undirritað en engin drög eða gögn voru lögð í hendur aðildarfélaganna. Með öðrum orðum, þetta rammasamkomulag var undirritað án nokkurs umboðs enda kom fram á miðstjórnarfundi sem haldinn var 4. nóvember að nú þyrfti að fara að kynna samkomulagið á meðal aðildarfélaga ASÍ og út á hvað það gengi. Semsagt, gengið var frá samkomulaginu og síðan átti að fara að kynna það en rétt er að taka það fram að engin kynning hefur farið fram af hálfu Alþýðusambands Íslands á meðal aðildarfélaga sambandsins, allavega ekki hjá Verkalýðsfélagi Akraness.

Eins og áður hefur komið fram gengur rammasamkomulagið að verulegu leyti út á að skerða samningsfrelsi stéttarfélaganna, meðal annars að ákveða fyrirfram hverjar launabreytingar megi vera til ársins 2018, endurskoðun kjarasamninga var afsalað með nýjum samningi og svo eins og áður sagði á að setja á laggirnar nýtt þjóðhagsráð sem mun takmarka samningsfrelsi stéttarfélaganna. Það liggur fyrir að Samband íslenskra sveitarfélaga segir hvellskýrt að allt rammasamkomulagið sé undir og verði að vera fylgiskjal með þeim samningi sem VLFA á eftir að gera við sambandið, ellegar verði ekki gengið frá samningnum og þeir segja líka að þeir séu skuldbundnir í gegnum þetta rammasamkomulag sem þeir hafi gert við ASÍ. Þetta er eðli málsins samkvæmt gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem og stjórnarskránni enda er samningsfrelsið hornsteinn stéttarfélagsbaráttu á Íslandi.  

Rétt er að geta þess að bæði Hæstiréttur og Félagsdómur hafa margoft fjallað um samningsfrelsi stéttarfélaganna og segir meðal annars í dómsorði frá Hæstarétti: "Með vísan til viðtekinnar túlkunar á 1. og 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans verður að túlka 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar svo að ákvæðið verndi ekki einungis rétt manna til að stofna stéttarfélög heldur verndi það einnig frelsi stéttarfélaga til að standa vörð um og tryggja hagsmuni félagsmanna sinna. Samningsfrelsi félaganna er leið að slíku marki og nýtur því sérstakrar verndar." Skýrara verður það ekki frá Hæstarétti Íslands!

Einnig er rétt að vísa í annan dóm um samningsfrelsið frá Hæstarétti en þar segir orðrétt:  "Í samningsrétti gildir grundvallarreglan um samningsfrelsi en í henni felst að aðilar ráða efni samnings sín á milli. Þessi regla gildir meðal annars á vinnumarkaði. Á þeim vettvangi er samningsfrelsið jafnframt varið af 2. mgr. 75 gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að löggjafanum ber með lögum að kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Að þessu gættu verður að koma ótvírætt fram í lögum ef ákvæði þeirra eiga að vera ófrávíkjanleg við gerð kjarasamninga."

Já, skýrara verður það ekki hvað Hæstarétt varðar þegar fjallað er um samningsfrelsi stéttarfélaganna og ef aðilar rammasamkomulagsins vilja meina að þeir séu ekki að skerða samningsfrelsið með þessu samkomulagi, samkomulagi sem gengur út á að takmarka launabreytingar til handa launafólki, þá veit formaður VLFA ekki hvað það er að skerða samningsfrelsi. Að sjálfsögðu er verið að skerða samningsfrelsi með þessu rammasamkomulagi enda eru aðilar að samkomulaginu búnir að skuldbinda sig til að fara eftir því í hvívetna eins og fram kemur í rammasamkomulaginu.

Það eru þónokkrir forystumenn í verkalýðshreyfingunni nú þegar búnir að viðurkenna að þeir telji að SALEK samkomulagið sé skerðing á samningsfrelsi stéttarfélaganna. Nægir að nefna í því samhengi að á formannafundi ASÍ 28. október kom fram í máli formanna RSÍ, Byggiðnar og Framsýnar á Húsavík að þeir teldu að umrætt rammasamkomulag væri skerðing á samningsfrelsi. Einnig hefur formaður heyrt haft eftir fyrrverandi formanni Verkamannasambands Íslands að umrætt SALEK samkomulag væri klár skerðing á samningsrétti og frelsi stéttarfélaga. Og fyrrverandi varaforseti ASÍ sagði inni á fésbókarsíðu sambandsins að SALEK samkomulagið væri lúmsk tilraun til að taka lögvarinn samningsrétt af stéttarfélögum.

Það er líka rétt að rifja það upp að forseti ASÍ sagði á framkvæmdastjórnarfundi Samiðnar að ef SALEK samkomulagið hefði verið komið á laggirnar fyrr þá væri ljóst að ekki hefði verið hægt að semja um þær miklu launabreytingar sem samið var um við stóriðjurnar á Grundartanga. Þetta sýnir svo ekki verður um villst þá skuldbindingu sem mun felast í SALEK samkomulaginu ef það verður að veruleika og ef einhver ætlar að segja að þetta sé ekki skerðing á samningsfrelsi Verkalýðsfélags Akraness og brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þá veit formaður ekki hvað.

Það er gríðarlega mikilvægt að Félagsdómur kynni sér þetta mál vel og rækilega og verji frjálsan samningsrétt íslenskra stéttarfélaga sem er bundinn í lögum og stjórnarskrá því eins og áður sagði er samningsfrelsi launafólks hornsteinn íslenskrar stéttarfélagsbaráttu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image