• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Jan

SALEK samkomulagið bíður dómsuppkvaðningar

Í gær tók Félagsdómur mál Verkalýðsfélags Akraness gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir vegna svokallaðs SALEK samkomulags. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga lýst því yfir að þeir séu skuldbundnir af SALEK samkomulaginu og gera þá skýlausu kröfu að SALEK samkomulagið í heild sinni verði hluti af kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness vegna starfsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað.

Það sorglega í þessu máli er að það er enginn ágreiningur hvað varðar launabreytingar í umræddum kjarasamningi heldur einungis hvort Sambandi íslenskra sveitarfélaga sé stætt á því að krefjast þess að SALEK samkomulagið sé sem fylgiskjal við samninginn en með slíku er ljóst að samkomulagið í heild sinni er orðið hluti af kjarasamningnum. Enda kemur fram á heimasíðu ASÍ þar sem fjallað er um gildi bókana og fylgiskjala með kjarasamningum og þar sem fjallað er um gildi fylgiskjala segir orðrétt á heimasíðu ASÍ: "Sé efni fylgiskjala með kjarasamningi samningur aðila um tiltekin efni, hafa þau sama gildi og kjarasamningurinn sjálfur."

Þetta myndi þýða ef að Verkalýðsfélag Akraness myndi samþykkja að SALEK samkomulagið yrði með sem fylgiskjal með kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga að félagið væri búið að samþykkja að fullu allt sem í SALEK samkomulaginu stendur eins og til dæmis þjóðhagsráð, samræmda launastefnu til 2018 og önnur atriði sem að í samkomulaginu er kveðið á um. Eðli málsins samkvæmt hefur Verkalýðsfélag Akraness enga heimild til að samþykkja slíkt enda væri það gróft brot á frjálsum samningsrétti stéttarfélagsins samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Formaður VLFA sagði í vitnaleiðslum fyrir Félagsdómi í gær hverjar afleiðingarnar yrðu af því ef félagið myndi samþykkja að umrætt SALEK samkomulag myndi fylgja með kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Afleiðingarnar væru fólgnar í því að í SALEK samkomulaginu er kveðið á um að launabreytingar frá nóvember 2013 til 31. desember 2018 megi ekki vera hærri en sem nemur 32%. Þetta myndi þýða að starfsmenn Elkem Ísland á Grundartanga sem verða með lausan samning í árslok 2017 ættu ekki rétt á neinni launahækkun fyrir árið 2018 vegna þess að þeir fylla upp í 32% kostnaðarrammann sem SALEK hópurinn er búinn að ákveða að megi vera hámark. Semsagt, þegar Verkalýðsfélag Akraness myndi mæta að samningsborðinu vegna kjarasamnings Elkem Ísland á Grundartanga þá væri í boði 0% launahækkun vegna þess að SALEK hópurinn segir að ekki megi semja um meira en 32% á áðurnefndu tímabili.

Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness er alls ekki aðili að þessu samkomulagi enda veitti félagið ASÍ aldrei umboð til þess að ganga frá umræddu SALEK samkomulagi. Samkomulagi sem gengur markvisst út á að skerða samningsrétt stéttarfélaganna og ógna tilvist þeirra enda er samningsfrelsið eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni, hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar. En með þessu SALEK samkomulagi er verið að marka vörðu að því að taka hægt og bítandi samningsréttinn af stéttarfélögum og færa hann yfir á miðstýrðan vettvang eða eins og kemur fram í rammasamkomulaginu, að stofnað verði þjóðhagsráð sem muni ákvarða allar launabreytingar á islenskum vinnumarkaði og stéttarfélögunum verði skylt að semja innan þess svigrúms.

Lögmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga gerðu það að aðalkröfu sinni eins og svo oft áður í svona málum að þessu máli yrði vísað frá á grundvelli þess að það ætti ekki heima undir Félagsdómi. Það er með ólíkindum að Samband íslenskra sveitarfélaga vilji ekki fá efnislega niðurstöðu í þetta mál, mál sem lýtur að einum mestu hagsmunum sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir nánast frá stofnun verkalýðshreyfingarinnar. Hagsmunum sem lúta að því að samningsrétturinn sé hjá fólkinu sjálfu en ekki einhverjum fámennum hópi sem getur ákvarðað hverjar hámarks launabreytingar mega vera eins og kveðið er á um í samræmdu launastefnunni sem og því sem lýtur að þjóðhagsráði.

Formaður vonast til þess að Félagsdómur haldi áfram að dæma með sama hætti og Félagsdómur, Héraðsdómur og Hæstiréttur hafa gert hingað til þegar kemur að samningsfrelsi stéttarfélaganna en allir dómar sem fallið hafa hvað samningsfrelsi varðar hafa verið ótvíræðir. Samningsfrelsi stéttarfélaganna hefur margoft verið staðfest á öllum þessum dómstigum enda er samningsfrelsið bundið í lög um stéttarfélög og vinnudeilur og stjórnarskránna. Félagsdómur á ekki að geta komist að þeirri niðurstöðu að þetta mál heyri ekki undir Félagsdóm enda liggur fyrir krafa um að SALEK samkomulagið sé fylgiskjal með kjarasamningi sem þýðir að það er ígildi kjarasamnings eins og kemur fram á heimasíðu ASÍ og í þessu SALEK samkomulagi er verið að skerða samningsfrelsi stéttarfélaganna sem er brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og þar af leiðandi á málið heima undir Félagsdómi. Að þessu sögðu á dómurinn ekki að geta komist að annarri niðurstöðu en að þetta sé óskuldbindandi og andstætt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og stjórnarskránni.

Væntanlega mun dómur verða kveðinn upp eftir viku til tíu daga en þetta mál hefur dregist algjörlega úr hófi enda eru liðnir tveir mánuðir frá því að þessu máli var stefnt til Félagsdóms. Formaður hefur sínar skýringar á því hvers vegna það hefur gerst en þær verða ekki tjáðar að svo stöddu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image