• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Formaður fundaði með forsætisráðherra Frá fundinum í gær
05
Jun

Formaður fundaði með forsætisráðherra

Í gær fundaði formaður félagsins með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, í Stjórnarráðinu. Á fundinum voru til umræðu hin ýmsu mál er lúta að hagsmunum heimilanna og íslenskrar alþýðu. Eitt af því sem var töluvert rætt var það baráttumál sem Verkalýðsfélag Akraness hefur staðið fyrir sem er leiðrétting á forsendubresti heimlanna og afnám verðtryggingar. Ítrekaði formaður þá skoðun félagsins að mikilvægt sé að afnema verðtrygginguna eins fljótt og kostur er og einnig að tekið verði á verðtryggingu eldri lána.

Fram kom hjá forsætisráðherra að nú þegar hafi starfshópur um framtíðarskipan húsnæðismála skilað af sér tillögum og það væri skemmst frá því að segja að í þeim tillögum væri gert ráð fyrir því að verðtrygging á nýjum húsnæðislánum muni heyra sögunni til. Þetta eru að sjálfsögðu mikil gleðitíðindi en eftir stendur að það verður að taka á verðtryggingu á eldri lánunum. Það væri meðal annars hægt að gera með því að setja þak á neysluvísitöluna. Formaður minnti forsætisráðherra á að nú væru nokkur dómsmál um lögmæti verðtryggingar í gangi og æði margt bendir til þess að útfærsla á verðtryggðum lánum sé búin að vera ólögleg allt frá árinu 2001 eins og reyndar neytendastofa hefur nú þegar kveðið upp úrskurð um. Fram kom í máli forsætisráðherra að stjórnvöld fylgist að sjálfsögðu vel með þessum dómsmálum og bíði niðurstöðu sem væntanlega ætti að liggja fyrir á þessu ári.

Formaður spurði forsætisráðherra út í það sem fram hafi komið í séráliti formanns um afnám verðtryggingar en það lýtur að hugsanlegri ofmælingu neysluvísitölunnar. Það var mikið fagnaðarefni að heyra forsætisráðherra segja að hann hafi kallað eftir skýrslu frá Hagstofunni um hvort hugsanlega sé ofmæling eða skekkja í neysluvísitölunni. Eins og kemur fram í sérálitinu frá formanni þá hafa rannsóknir sýnt að ofmæling hafi verið á neysluvísitölu vítt og breitt um heiminn. Hér á landi hefur slík rannsókn aldrei farið almennilega fram sem er í raun og veru óskiljanlegt í ljósi þess að íslenskt samfélag er gegnumsýrt af verðtryggingu eða með öðrum orðum nánast allt er verðtryggt hér á landi og því skiptir gríðarlegu máli að neysluvísitalan sé rétt mæld og engar skekkjur séu í henni.

Forsætisráðherra minntist á þau ánægjulegu tíðindi sem heyrst hefðu frá Grundartangasvæðinu er lúta að viljayfirlýsingu sólarkísilverksmiðjunnar Silicor sem hyggst hefja starfsemi á Grundartanga fyrr heldur en seinna. Fram kom í máli forsætisráðherra að stjórnvöld muni reyna að greiða götu þessa verkefnis eins og þeim er unnt að gera. Einnig kom fram í máli forsætisráðherra að það skipti íslenskt þjóðarbú gríðarlegu máli að hér sé að koma til dæmis í þessu tiltekna verkefni ef allt gengur upp um 80 milljarða fjárfesting og ekki spillir fyrir að hér sé um gjaldeyrisskapandi störf að ræða. Formaður beti forsætisráðherra á að hér væri um nokkuð vistvæna starfsemi að ræða og ljóst að ef af þessari uppbyggingu á Grundartanga verður muni þetta þýða gríðarlega innspýtingu fyrir samfélagið á Vesturlandi sem og samfélagið allt enda munu uppundir 400 manns starfa í verksmiðjunni þegar hún verður komin í fullan rekstur.

Þetta var ágætis fundur og að sjálfsögðu voru kjaramál einnig til umræðu og kom fram í máli formanns að margt bendi til að það stefni í hörð átök á íslenskum vinnumarkaði á næsta ári enda hefur nú komið í ljós að flestallir hópar sem sömdu á eftir íslensku verkafólki hafa samið um langtum hærri launahækkanir en verkafólk fékk. Fram kom hjá formanni að slíkt yrði ekki látið viðgangast í komandi kjarasamningum, svo mikið væri víst.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image