• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Mar

HB Grandi frestar áformum um lokun landvinnslunnar

Rétt í þessu lauk fundi Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmanna HB Granda með forsvarsmönnum HB Granda. VLFA og trúnaðarmenn lögðu til við forsvarsmenn fyrirtækisins að þeir myndu fresta áformum um að hætta landvinnslu á Akranesi og hefja viðræður við bæjaryfirvöld á Akranesi á grundvelli viljayfirlýsingar sem bæjaryfirvöld gáfu út í gær. Það er skemmst frá því að segja að forsvarsmenn fyrirtækisins tóku jákvætt í þessa hugmynd og voru tilbúnir til að hefja viðræður við Akraneskaupstað á grundvelli viljayfirlýsingarinnar. Í sameiginlegri yfirlýsingu sem aðilar gáfu út kemur fram að ef þessar viðræður við Akraneskaupstað, Faxaflóahafnir og aðra aðila sem tengjast málinu munu ekki verða með jákvæðum hætti að mati fyrirtækisins, þá muni landvinnsla á Akranesi hætta 1. september á þessu ári.

Það má segja að hér sé um hálfgerðan varnasigur að ræða, því við stóðum frammi fyrir því að fá uppsagnir nú um mánaðarmótin og því er það jákvætt að fyrirtækið sé tilbúið að hefja þessar viðræður við bæjaryfirvöld á grundvelli þess að lagfæra hér höfnina og annað sem til þarf til að hægt sé að efla starfsemi HB Granda á Akranesi. Eftir samráðsfundinn með forsvarsmönnum HB Granda var haldinn fundur með starfsmönnum fyrirtækisins og sagði formaður VLFA þar að þetta væru jákvæð tíðindi, en hann ítrekaði að hann vildi ekki vekja upp of miklar vonir hjá starfsmönnum því tíminn yrði að leiða í ljós hvort þau áform sem bæjaryfirvöld hafa um að uppfylla kröfur fyrirtækisins muni verða næginleg til að ekki þurfi að koma til þessara uppsagna.

En formaður vill vera bjartsýnn á að þessari viðræður eigi að geta skilað jákvæðri niðurstöðu, því sóknarfærin hér á Akranesi til að efla fiskvinnslu eru gríðarmörg. Hér er mikill mannauður og verkþekking sem skiptir hvert fyrirtæki greíðarlega miklu máli. Nú er bara að vona að þessar viðræður milli Akraneskaupstaðar, Faxaflóahafna og forsvarsmanna HB Granda verði okkur Akurnesingum til heilla, en tíminn einn mun geta leitt það í ljós. Niðurstaðan á að liggja fyrir í lok júní á þessu ári.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image