• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Mar

Verkfallsboðun samþykkt hjá starfsmönnum Elkem Ísland á Grundartanga

Verkfallsboðun var samþykkt með yfirgnæfandi meirihlutaVerkfallsboðun var samþykkt með yfirgnæfandi meirihlutaRétt í þessu luku trúnaðarmenn Elkem Ísland talningu á atkvæðum í kosningu um verkfall hjá Elkem Ísland á Grundartanga. Þeir sem tóku þátt í kosningunni eru félagsmenn allra félaga sem eiga aðild að kjarasamningnum hjá Elkem en þau eru Verkalýðsfélag Akraness, VR, FIT, RSÍ og Stéttarfélag Vesturlands. Það er skemmst frá því að segja að mjög góð kjörsókn var en 85,6% starfsmanna þessara félaga greiddu atkvæði og var verkfallsboðunin samþykkt með 84,4% þeirra sem greiddu atkvæði.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er kjarasamningur Elkem Ísland búinn að vera laus frá 1. desember 2013 og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að ná fram nýjum kjarasamningi þá hefur það ekki borið árangur og var það því niðurstaða starfsmanna Elkem Ísland að ekkert annað væri í stöðunni en að boða til verkfalls frá 25. mars næstkomandi. Kröfugerð starfsmanna lýtur að því að hafna algjörlega samræmdri launastefnu ASÍ og SA enda liggur fyrir að hér er um sterkt og öflugt útflutningsfyrirtæki að ræða og því er það mat starfsmanna að það komi ekki til greina að semja á grundvelli samræmdrar launastefnu sem um var samið í kjarasamningunum á hinum almenna vinnumarkaði. Hinsvegar er rétt að geta þess að launakröfur starfsmanna Elkem Ísland eru hófstilltar, eðlilegar og sanngjarnar en störf í stóriðjum eru krefjandi, hættuleg og erfið og því er krafa starfsmanna sú að tekið verði tillit til þessara þátta.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar þessari niðurstöðu innilega en hann er jafnframt formaður samninganefndar vegna kjarasamnings Elkem Ísland. Þetta sýnir að algjör samstaða og einhugur ríkir á meðal starfsmanna Elkem Ísland um að berjast fyrir bættum og sanngjörnum kröfum til handa þeim sem starfa hjá fyrirtækinu. Það er einlæg von formanns VLFA að forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins og Elkem Ísland átti sig á þeirri alvarlegu stöðu sem nú er komin upp og einbeiti sér að því að finna lausn í þessari erfiðu kjaradeilu.

Næsti fundur hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara á þriðjudaginn kemur.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image