• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fundur hjá ríkissáttasemjara - Lagt til að verðtryggja laun Frá heimsókn ríkissáttasemjara á skrifstofu VLFA árið 2009
04
Feb

Fundur hjá ríkissáttasemjara - Lagt til að verðtryggja laun

Formaður félagsins fundaði með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins í morgun hjá Ríkissáttasemjara, en eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær hafði Ríkissáttasemjari boðað til þessara fundar. Þeir kjarasamningar sem voru til umfjöllunar voru kjarasamningur starfsmanna Elkem Ísland á Grundartanga,  sérkjarasamningur fiskimjölsverksmiðjunnar, kjarasamningur starfsmanna Klafa, sem sér um út- og uppskipanir á Grundartanga, auk kjarasamningsins á hinum almenna vinnumarkaði.

Það er óhætt að segja að viðræðurnar við Samtök atvinnulífsins, sem ríkissáttasemjari stjórnaði, hafi verið gagnlegar og uppbyggilegar þar sem menn hafi skipst á skoðunum án þess að nein niðurstaða hafi náðst. Formaður lagði t.d. fram nokkrar tillögur til lausnar á deilunni, í fyrsta lagi að laun lágtekjufólks yrðu hækkuð umtalsvert, til dæmis með krónutöluhækkun og breytingum á innröðun í launatöflu, þar sem sérstakt tillit yrði tekið til starfsmanna í útflutningsfyrirtækjum eins og t.d. hjá ferðaþjónustunni og fiskvinnslunni. Í öðru lagi nefndi formaður hvort ekki mætti skoða að gengið yrði frá nokkurs konar þjóðarsátt þar sem samið yrði um fasta krónutöluhækkun sem gæti numið 20.000 krónum, sem hugsanlega gæti leitt til þess að kostnaðarauki atvinnulífsins yrði ekki meiri en fyrirliggjandi samningur kveður á um. Slík hækkun myndi ganga jafnt yfir alla óháð því hvort fólk sé með milljón í laun eða 200.000 krónur. Slíkan samning væri svo sannarlega hægt að kalla þjóðarsáttarsamning þar sem allir tækju á sig sambærilega launahækkun og horfið yrði frá prósentu-hækkun í samningnum.

Þriðja tillagan sem formaður nefndi snerist um að verðtryggja núverandi samning verkafólks út samningstímann. Með því væri ábyrgðinni varpað yfir á atvinnulífið og stjórnvöld að halda hér stöðugleika út samningstímann. Ef verðbólgan yrði 2% í lok samningstímans þá kæmi samkvæmt þessari tillögu 2% launahækkun til viðbótar því sem um hafði verið samið. Ef verðbólgan yrði hins vegar 5% þá kæmi 5% launahækkun í lok samningstímans. En með því að verðtryggja þennan samning væri verið að varpa ábyrgðinni meira yfir á ríki, sveitarfélög, verslun og í raun og veru atvinnulífið í heild sinni við að halda verðbólgu hér niðri. Formaður telur að þessi leið sé alveg fær út samningstímann og sérstaklega í ljósi þess að verðtrygging hefur ekki enn verið afnumin af fjárskuldbindingum heimilanna.

Það er skemmst frá því að segja varðandi verðtryggingu launa, þá höfnuðu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins því algerlega og sögðu slíkt ekki koma til greina því reynslan af verðtryggingu launa væri ekki góð.

Varðandi sérkjarasamningana þá voru þeir einnig til umræðu og það kom alveg skýrt fram hjá forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins að ekki verður gengið frá sérkjarasamningunum fyrr en kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði hefur verið frágenginn. Einnig kom fram hjá þeim að þær launabreytingar sem um semst í aðalkjarasamningi muni verða þær sömu og sérkjarasamningarnir muni fela í sér. Slíkt á Verkalýðsfélag Akraness afar erfitt með að sætta sig við enda eru sérkjarasamningar félagsins t.d. við Elkem ísland sjálfstæðir samningar og ekki eðlilegt að starfsfólki þar sé stillt þannig upp við vegg að samið sé um kjör þeirra í allt öðrum samningum en þeirra eigin.

Eins og áður sagði þá var þetta bara nokkuð góður fundur hjá ríkissáttasemjara í dag þótt niðurstaðan væri engin, því grunnforsenda til að leysa kjaradeilur er að menn geti talað saman, skipst á skoðunum og reynt að finna lausnir til þess að leysa vandann. Því það er morgunljóst að vandinn er umtalsverður og það er skylda beggja samningsaðila að leggja sig í líma að finna lausn sem báðir samningsaðilar geta fallist á.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image