• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Feb

Samstaða og einhugur ríkti á fundi starfsmanna Elkem Ísland

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá hélt Verkalýðsfélag Akraness kynningar- og samstöðufund  í gær með starfsmönnum Elkem Ísland vegna þeirrar grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna sérkjarasamnings félagsins við Elkem.

Þrátt fyrir fundarhöld með Samtökum atvinnulífsins þá hefur ekkert miðast áfram og bjóða Samtök atvinnulífsins einungis það sama og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði, en það tilboð hljóðar frá 2,8% upp í rétt rúm 3%. Það kom skýrt fram hjá starfsmönnum Elkem á fundinum í gær að þeir munu aldrei sætta sig við að samið sé um launahækkanir þeirra í öðrum kjarasamningi en þeirra eigin.

Samstaðan og einhugurinn sem ríkti á fundinum var vægast sagt frábær. Skýrt kom fram hjá fundarmönnum að þeir munu aldrei sætta sig við það smánartilboð sem nú liggur á borðinu, enda liggur fyrir að starfsmenn Elkem hafa fundið fyrir umtalsverðu auknu álagi á undanförnum misserum og sem dæmi þá var framleiðslumet slegið hjá Elkem á síðasta ári, þrátt fyrir að starfsmönnum hafi fækkað talsvert. Það kom skýrt fram hjá starfsmönnum að þeir eru tilbúnir að standa saman sem einn maður í því að knýja fram sanngjarna kröfu um hækkun launa sinna, enda liggur fyrir að vinnustaðurinn Elkem getur verið áhættusamur og krefjandi og því ljóst að laun starfsmanna verða að endurspegla það umhverfi sem starfsmenn starfa við.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar á morgun og það er morgunljóst að ef ekki kemst einhver niðurstaða á þeim fundi, þá munu starfsmenn íhuga sterklega að grípa til einhvers konar aðgerða. Því eins og áður sagði þá er þetta sérkjarasamningur sem starfsmenn hafa haft í áratugi og það er ekki boðlegt að þeirra mati að Samtök atvinnulífsins komi og segi að það sem samið er um í öðrum samningum en þeirra eigin, skuli gilda fyrir starfsmenn Elkem Ísland. Við slíkt munu starfsmenn aldrei sætta sig.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image