• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Feb

Starfsmenn Elkem Ísland samþykktu yfirvinnubann einróma

Í hádeginu í dag lauk kosningu þeirra félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Elkem Ísland á Grundartanga. Kosið var um yfirvinnubann og greiddu 52,6% þeirra sem voru á kjörskrá atkvæði. Talningu atkvæða lauk fljótlega upp úr hádegi og fór kosningin þannig að 70 manns studdu yfirvinnubann, einn seðill var auður og enginn var á móti. Þetta sýnir svo ekki verður um villst þá gríðarlega samstöðu og einhug sem ríkir meðal starfsmanna um að standa saman og krefjast þess að launakjör starfsmanna verði bætt og tekið verði tillit til þeirra krefjandi vinnuaðstæðna sem fylgja því að vinna í stóriðju. Einnig ríkir algjör einhugur hjá starfsmönnum um að hafna því að sú smánarhækkun sem boðin var í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði verði látin gilda fyrir starfsmenn Elkem.

Það liggur fyrir að útflutningsgreinar hafa notið afar góðra rekstrarskilyrða allt frá hruni, meðal annars vegna falls íslensku krónunnar og því er ekki hægt að setja útflutningsfyrirtæki og aðrar atvinnugreinar hér á landi undir einn og sama hattinn, og mikilvægt að horft verði til stöðu hverrar atvinnugreinar þegar samið er um kaup og kjör hverju sinni.

Hjá Elkem hefur verið leitað hagræðingar á ýmsum sviðum á undanförnum mánuðum og ári, sem birtist m.a. í því að launakostnaður fyrirtækisins vegna verkafólks hefur lækkað umtalsvert á milli ára, sem er vegna fækkunar starfsfólk. En fækkun starfsfólks hefur leitt það að verkum að aukið álag er á þá sem eftir eru. Þessu til viðbótar liggur fyrir að störf í stóriðjum geta verið áhættusöm og krefjandi og því þurfa launakjör að endurspegla þær staðreyndir.

Rétt er að geta þess að kjarasamningur Elkem Ísland á Grundartanga rann út 1. desember 2013 og hafa viðræður staðið yfir við Samtök atvinnulífsins síðan þá, en þær hafa engan árangur borið. Í gær var fundað hjá ríkissáttasemjara og þegar ljóst var að engin stefnubreyting hafði orðið af hálfu Samtaka atvinnulífsins óskaði Verkalýðsfélag Akraness eftir því að skráð yrði í fundargerðabækur ríkissáttasemjara að viðræður væru árangurslausar, en það er ein af grunnforsendum þess að hægt er að boða til yfirvinnubanns á löglegan hátt.

Að sjálfsögðu vonast félagið svo sannarlega til þess að ekki þurfi að koma til þessa yfirvinnubanns, heldur setjist menn niður og leysi þessa kjaradeilu. En til að hún leysist þá þarf að vera eitthvað innihald í því tilboði sem berst frá Samtökum atvinnulífsins. Það er morgunljóst að yfirvinnubann hjá starfsmönnum Elkem Ísland mun geta haft víðtæk áhrif á starfsemi fyrirtækisins, en þar sem töluverð fækkun hefur orðið á starfsfólki hefur talsvert verið um yfirvinnu og oft á tíðum eru 3-4 einstaklingar á aukavakt á hverjum degi. En félagið ítrekar það að vonast er til þess að samningar takist fyrir 23. febrúar til að forða megi því að yfirvinnubannið taki gildi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image