• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Feb

Fundað hjá Ríkissáttasemjara vegna Elkem á morgun

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá kusu starfsmenn Elkem Ísland sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness um yfirvinnubann vegna þess að ekkert hefur þokast í samningaviðræðum við forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, en kjarasamningur starfsmanna rann út 1. desember á síðasta ári. Það kom einnig fram í frétt hér á heimasíðunni að gríðarleg samstaða og einhugur ríkir á meðal starfsmanna Elkem Ísland og endurspeglaðist sá einhugur í kosningunni um yfirvinnubannið, enda samþykktu allir sem tóku þátt í kosningunni að hefja yfirvinnubann næstkomandi sunnudag.

Verkalýðsfélag Akraness á upp undir 90% allra starfsmanna Elkem Ísland. Hin 10 prósentin tilheyra VR, Félagi iðn- og tæknigreina, Rafiðnaðarsambandi Íslands og Stéttarfélagi Vesturlands. Verkalýðsfélag Akraness óskaði eftir því við hin félögin að þau myndu taka þátt í þessu yfirvinnubanni, aðgerð sem væri fólgin í því að reyna að bæta kjör þeirra sem starfa hjá fyrirtækinu, enda er það samróma álit starfsmanna að hafna þeirri smánarhækkun sem um var samið í kjarasamningunum á hinum almenna vinnumarkaði í desember síðastliðnum.

Það kom formanni VLFA verulega á óvart þegar í ljós kom að hin félögin sem aðild eiga að samningi Elkem kváðust ekki ætla að taka þátt í þessu yfirvinnubanni og undrast formaður þá afstöðu í ljósi þeirrar miklu samstöðu og einhugs sem ríkti hjá öllum þeim sem kusu um yfirvinnubannið. En þetta endurspeglar viljaleysi og kjarkleysi verkalýðshreyfingarinnar og með ólíkindum að menn vilji ekki standa saman þegar skilaboð starfsmanna eru þetta skýr.

Starfsmenn Elkem Ísland og Verkalýðsfélag Akraness höfnuðu þessari samræmdu launastefnu sem mótuð var fyrst 2011 og svo aftur í nýgerðum kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði og sem dæmi þá tókst VLFA að brjóta á bak aftur samræmdu launastefnuna árið 2011 sem gerði það að verkum að hver og einn einasti starfsmaður Elkem Ísland fékk 1,5 milljón meira í laun á þessum þremur árum, en hafnn hefði fengið ef farið hefði verið eftir samræmdri launastefnu ASÍ og SA sem kvað á um 11,4% í heildina.

Ríkissáttasemjari hefur nú boðað til fundar í þessari erfiðu deilu á morgun kl. 11 og umtalsverðar líkur á því að yfirvinnubannið skelli á með fullum þunga á hádegi næstkomandi sunnudag, ef ekkert bitastætt kemur frá Samtökum atvinnulífsins í þessari deilu. Það er engan bilbug að finna á félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Elkem, þrátt fyrir að hin félögin hafi ekki viljað sýna félögum sínum stuðning með því að taka þátt í þessu yfirvinnubanni. En þetta samstöðuleysi lýsir íslenskri verkalýðshreyfingu í hnotskurn þessi misserin.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image