• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Nov

10 ára starfsafmæli stjórnar VLFA

Í dag eru liðin nákvæmlega 10 ár frá því núverandi stjórn tók við stjórnartaumunum í Verkalýðsfélagi Akraness. Eins og einhverjir muna hafði þá um nokkurra ára skeið ríkt umtalsverður ágreiningur vegna stjórnunarhátta í félaginu. Það endaði með því að Alþýðusamband Íslands yfirtók félagið og skipaði starfsstjórn þar sem félagið var orðið óstarfhæft vegna deilna. Alþýðusambandið tók á þessum tíma ákvörðun um að breyta lögum félagsins með þeim hætti að fyrir stjórnarkosningar var stillt var upp tveimur listum, í þeim tilgangi að reyna að koma á starfsfriði í félaginu. Fór síðan fram allsherjarkosning í félaginu þar sem upp undir 90% félagsmanna tóku þátt og niðurstaðan var sú að listi undir forystu núverandi formanns bar sigur úr býtum. Rétt er að geta þess að stór hluti þeirra sem nú eru í stjórn félagsins hafa setið í henni frá upphafi með örfáum undantekningum. Það hefur ekki verið til vandræða að fá fólk í stjórn félagsins, enda hefur ríkt mikil samstaða innan stjórnar öll þessi ár.

Það er óhætt að segja að á þessum 10 árum hafi félagið tekið miklum stakkaskiptum og á það jafnt við fjárhagslega sem og félagslega. Sem dæmi má nefna að þegar núverandi stjórn tók við fyrir 10 árum var félagssjóður rekinn á yfirdrætti. Með öðrum orðum, félagið var fjárvana. Á þessum 10 árum hefur núverandi stjórn tekist að byggja upp sterkan fjárhag félagsins og stendur félagið mjög vel hvað það varðar. Auk þess hefur félagið styrkst félagslega jafnt og þétt öll þessi 10 ár sem sést m.a. á því að félagsmönnum hefur fjölgað um helming á þessum 10 árum, en árið 2003 voru um 1500 félagsmenn í VLFA en nú eru þeir rétt um 3.000. Á þessum sama tíma hafa allir sjóðir félagsins aukið við réttindi til félagsmanna og sem dæmi þá hefur félagið tekið upp fjölmarga nýja styrki til handa félagsmönnum, enda er það markmið stjórnar að láta félagsmenn ávallt njóta góðs þegar rekstur félagsins er jákvæður og það hefur hann verið öll þessi 10 ár.

Það er markmið stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að reyna eftir fremsta megni að vera það stéttarfélag sem þjónustar sína félagsmenn hvað best hér á landi og er gaman að segja frá því að félagið hefur innheimt vegna hinna ýmsu kjarasamningsbrota á þessum 10 árum upp undir 220 milljónir sem gerir að jafnaði 22 milljónir á ári. Þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er fyrir launafólk að hafa öflugt og sterkt stéttarfélag á bak við sig sem er tilbúið að berjast fyrir því að atvinnurekendur komist ekki upp með að brjóta kjarasamninga. En það er morgunljóst að vinna við að bæta og gæta að réttindum verkafólks mun aldrei taka enda, hér er um eilífðarverkefni að ræða.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image