• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Nov

Stefnir enn og aftur í samræmda láglaunastefnu!

Rétt í þessu lauk fundi hjá samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands og er óhætt að segja að formaður VLFA sé afar vonsvikinn með það sem þar var samþykkt. En nú liggur fyrir að meirihluti samninganefndar SGS hefur samþykkt að fara í samflot með öðrum landssamböndum innan ASÍ við gerð nýs kjarasamnings.

Þetta er svo sorgleg niðurstaða í ljósi þeirrar gríðarlegu vinnu sem aðildarfélög SGS hafa lagt í mótun kröfugerðar, en SGS hefur skilað metnaðarfullri kröfugerð til Samtaka atvinnulífsins þar sem farið var fram á að lágmarkstaxtar myndu hækka um 20.000 krónur í árssamningi, eða með öðrum orðum að lægsti taxti á hinum almenna vinnumarkaði færi úr 191.752 í 211.752 krónur. Auk þess krafðist SGS að tekið yrði sérstakt tillit til starfsmanna í útflutningsgreinunum eins og t.d. í ferðaþjónustu og fiskvinnslu, enda hafa t.d. útgerðarfyrirtæki verið að skila allt að 80 milljörðum í hagnað ár hvert undanfarin ár. Á þeirri forsendu var krafa gerð um að fiskvinnslufólk fengi sanngjarna hlutdeild í þessari góðu afkomu.

Nú liggur hins vegar fyrir að önnur landssambönd hafa látið hafa það eftir sér að kröfugerð samninganefndar SGS sé of innihaldsmikil og hafa í raun og veru gert kröfu um að slegið verði af kröfugerð SGS. Einnig hefur forseti ASÍ sagt að kröfugerð SGS sé of há! Nú vilja þessir menn enn og aftur fara í svokallaða samræmda launastefnu eins og gert var árið 2011, og mun hún væntanlega byggjast á því að allir fái sömu launahækkun algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Þetta er eins ömurlegt og mest má vera, einfaldlega vegna þess að staða Starfsgreinasambandsins í þessum viðræðum er gríðarlega sterk, enda liggja fyrir þær bláköldu staðreyndir sem hér hafa verið raktar um góða afkomu útflutningsgreinanna.

Þetta er líka sorglega grátlegt í ljósi þess að á grundvelli áðurnefndra staðreynda var samninganefnd SGS búin að samþykkja að fara eitt og sér í þessar kjaraviðræður. En nú hafa menn tekið algjöra vinkilbeygju með þessari samþykkt um samflot með hinum landssamböndunum, samflot sem byggir á engu öðru samræmdri launastefnu. Það er líka rétt að vekja athygli á að á þingi SGS fyrir nokkrum vikum var samþykkt ályktun sem kvað á um að í komandi kjarasamningum ætlaði sambandið að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt svo um munaði. Vissulega kom fram hjá forsvarsmönnum SGS á fundinum áðan að það stæði ekki til að gefa afslátt á okkar kröfum í þessu samfloti, en formaður VLFA sagði að hann væri búinn að vera nógu lengi í þessari baráttu til að skynja það sem framundan væri. Nú væri að fara af stað sama samræmda láglaunastefnan og var rekin 2011. Og það undir forystu forseta Alþýðusambands Íslands.

Formaður VLFA skal algjörlega viðurkenna að þetta eru gríðarleg vonbrigði. Að menn skuli ekki standa í lappirnar og fylgja eftir því sem áður hefur verið samþykkt, eins og að vera ein og sér og gera allt til þess að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt. Formaður ætlar að vona að hann hafi rangt fyrir sér í því sem hann telur að framundan sé, en byggir á eigin reynslu þegar hann segist óttast að hér sé enn og aftur verið að búa til samræmda launastefnu þar sem hagsmunir verkafólks verða svo sannarlega ekki hafðir að leiðarljósi.

Og það er ekki bara að hann óttist áðurnefnd atriði, heldur liggur fyrir að eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur ASÍ lagt fram tillögu um að skattatillögur nái ekki til fólks undir 250.000 krónum í launum. Það er með ólíkindum að ætla að skilja lágtekjufólk sem stendur hvað höllustum fæti í íslensku samfélagi eftir þegar kemur að aðkomu stjórnvalda hvað skattalækkanir varðar, og hafi Alþýðusambandi skömm fyrir þessa tillögu sína.

Að lokum hvetur formaður VLFA verkafólk vítt og breitt um landið til að fara að láta í sér heyra því hann trúir ekki að það sé vilji hins almenna verkamanns að stéttarfélögin vítt og breitt um landið standi ekki lappirnar og krefjist leiðréttingar á launum þeirra. Það er afar mikilvægt fyrir okkur formenn stéttarfélaga að átta okkur á því að við erum í vinnu fyrir fólkið, en fólkið þarf að segja okkur með afgerandi hætti hvernig við eigum að vinna að ykkar hagsmunum. Látið í ykkur heyra í ykkar stéttarfélagi!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image