• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Oct

Er verðlagsstofa skiptaverðs að hafa af þjóðarbúinu 7 milljarða á ári?

Sjómenn vítt og breitt um landið hafa um alllanga hríð verið afar ósáttir við það viðmiðunarfiskverð sem Verðlagsstofa skiptaverðs ákvarðar, enda er það verð ætíð langt undir því verði sem fæst þegar fiskur er seldur í opnum viðskiptum í gegnum fiskmarkaði.

Það er morgunljóst að hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir þá sjómenn sem eru látnir taka laun sín eftir því lágmarksverði sem Verðlagsstofa skiptaverðs ákveður. Enda hafa útgerðir í auknu mæli hætt að landa afla á fiskmarkaði og tekið aflann beint inní vinnsluna hjá sér og greitt sjómönnum viðmiðunarverðið frá Verðlagsstofu, en ekki markaðsverð og hér munar gríðarlegum upphæðum.

Þetta þýðir að sjómenn verða af miklum tekjum, sveitarfélögin verða af útsvari, ríkissjóður af tekjuskatti og hafnarsjóðir sveitarfélaganna af hafnargjöldum, því aflaverðmætið verður mun minna en ef allur fiskur myndi taka mið af markaðsverði.  Þeir einu sem græða eru útgerðamennirnir!

Skoðum hvað áætlað er að sjómenn, ríkissjóður, sveitarfélögin og hafnarsjóðir eru að verða af miklum fjármunum vegna þess að útgerðir komast upp með að greiða eftir lágmarksverði Verðlagsstofu skiptaverðs. Samkvæmt skýrslu sem KPMG gerði fyrir Samtök fiskframleiðenda í fyrra þá kemur fram að ef útgerðamenn hefðu látið markaðsverð á fiskmörkuðum gilda, þá hefði aflaverðmætið hækkað um 18 milljarða.  Það hefði þýtt að tekjur þeirra sjómanna sem taka laun eftir Verðlagsstofuverðinu hefðu verið 7 milljörðum hærri, takið eftir: 7 milljörðum. Sveitarfélögin hefðu fengið 1 milljarð í auknar útsvarstekjur, ríkissjóður hefði fengið tæpa 2 milljarða í aukinn tekjuskatt og hafnarsjóðir hefðu fengið 350 milljónir í auknar tekjur vegna hærra aflaverðmætis.  

En hvernig er þetta viðmiðunarverð sem Verðlagsstofa skiptaverðs styðst við fundið út? Jú, það er nefnd sem ákvarðar þetta verð, en úrskurðarnefndin starfar eftir lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna frá árinu 1998. Í úrskurðarnefndinni sem tekur ákvörðun um þetta fiskverð sitja hagsmunaaðilar útgerðarmanna og sjómanna en í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá Landssambandi útvegsmanna og Landssambandi smábátasjómanna ásamt fulltrúum frá Sjómannasamtökunum.

Brot á samkeppnislögum?

Þetta fyrirkomulag er vart hægt að telja eðlilegt, enda hefur samkeppniseftirlitið gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag í áliti sem kom út árið 2012. Þar kom meðal annars fram orðrétt:

„Í þriðja lagi vill samkeppniseftirlitið benda ráðherra á að það fyrirkomulag laga um Verðlagsstofu skiptaverðs, sem fjallað var um hér að framan, að hagsmunasamtök útvegsmanna sem eru keppinautar, ræði um og ákveði verð sem síðan er notast við í innri viðskiptum útgerða er óheppilegt í samkeppnislegu tilliti.“ Einnig kom eftirfarandi fram í álitinu „Til að koma í veg fyrir þær samkeppnishömlur sem af þessu fyrirkomulagi leiða væri eðlilegast að útvegsmenn kæmu ekki með beinum hætti að ákvörðun þessa verðs (Verðlagsstofuverðs). Möguleg lausn væri að efla starfsemi skiptaverðs og gefa stofnuninni heimildir til ákvarða viðmiðunarverð í beinum viðskiptum með fisk.“ Svo segir einnig í þessu áliti: „Slík breyting eða önnur sambærileg leið myndi líklega hafa að í för með sér að verð í innri viðskiptum samþættra útgerða yrði líkara því verði sem annars myndi gilda í sambærilegum viðskiptum á milli tveggja ótengdra aðila.“

Takið eftir þessum orðum, þarna segir Samkeppniseftirlitið að ef útgerðarmenn kæmu ekki að ákvörðun viðmiðunarverðsins þá yrði fiskverðið til sjómanna hærra. Formaður spyr sig, er þetta ekki brot á samkeppnislögum? Og hví gerir Samkeppniseftirlitið ekkert í því að fylgja þessum ábendingum sínum eftir? Hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir þjóðarbúið allt.

Já, eins og áður sagði þá er gremja sjómanna vítt og breitt gríðarleg vegna þess mikla munar sem er á milli verðs Verðlagsstofu skiptaverðs og þess verðs sem fæst með sölu í gegnum fiskmarkaði. Eins og fram kom í skýrslunni frá KPMG eru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir sjómenn og getur sú upphæð numið allt að 7 milljörðum króna á ársgrundvelli.

Einhverra hluta vegna hafa útgerðarmenn komist upp með það að nota eingöngu verð Verðlagsstofu varðandi uppgjör til sjómanna þrátt fyrir að það sé einungis viðmiðunarverð og lágmarksverð.

Formaður vill benda sjómönnum á að skýrt er kveðið á um í kjarasamningum að útgerðarmaður og áhöfn skuli gera sín á milli samning um fiskverð þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu. Það er að segja, í viðskiptum milli skyldra aðila. Sjómenn eru beðnir um að taka sérstaklega eftir þessu: Til að slíkur samningur öðlist gildi skal hann staðfestur í leynilegri atkvæðagreiðslu áhafnar og að því loknu undirritaður af fulltrúum áhafnar og útgerðar. Samningurinn skal vera í stöðluðu formi þar sem fram komi meðal annars verð einstakra fisktegunda, gildistími, uppsagnarákvæði og svo framvegis.

Ætli sjómenn hafi almennt gert slíka samninga um fiskverð, eða er það útgerðamaðurinn sem ákveður einhliða að Verðlagstofuverðið skuli gilda?

Takið enn og aftur eftir sjómenn, þið hafið rétt til þess að semja við ykkar útgerð um fiskverð og sjómenn eiga alls ekki að láta útgerðarmenn komast upp með að nota viðmiðunarverðið frá Verðlagsstofu skiptaverðs sem er lágmarksverð eins og margoft hefur komið fram. Leitið til ykkar stéttarfélags, tökum höndum saman og látum ekki allan arðinn renna óskiptan til útgerðarmanna eins og nú er. Sjómenn, fiskvinnslufólk og þjóðin öll vill fá hlutdeild í þessum mikla arði sem auðlindir hafsins eru að skila okkur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image