• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Oct

Stöðuyfirlit í verðtryggingamáli Verkalýðsfélags Akraness

Eins og flestir muna þá óskaði Verkalýðsfélag Akraness eftir því í fyrra við Björn Þorra Viktorsson hrl. og Braga Dór Hafþórsson hdl., að þeir tækju saman lögfræðilega álitsgerð um lögmæti og framkvæmd verðtryggingar á Íslandi.  Að mati lögmannanna  eru allmörg atriði sem gætu bent til þess að bæði grundvöllur verðtryggingarinnar og framkvæmd hennar stangist á við lög.  Eftir að álitsgerðin var birt á heimasíðu VLFA urðu miklar umræður um málefnið og fjölmiðlar tóku það til umfjöllunar. 

Það var morgunljóst að þessi álitsgerð féll ekki vel í kramið hjá varðmönnum verðtryggingarinnar og má nefna að forseti ASÍ lét m.a. hafa eftir sér í viðtali á Bylgjunni, að höfundarnir væru nú „ekki þekktir fyrir að vera mesta mannvitið“!

Í kjölfarið varð mikil umræða um mikilvægi þess, að láta reyna á lögmæti verðtryggingar og framkvæmdar hennar fyrir dómstólum. Fjölmargir félagsmenn VLFA höfðu samband og hvöttu til þess að félagið legði þeirri baráttu lið, enda liggur fyrir að margir félagsmenn telja það sitt helsta kjaramál að losna undan oki verðtryggingar á lánum sínum, enda vita allir að félagsmenn fá ekki launin sín verðtryggð. Málið var tekið fyrir í stjórn VLFA, sem samþykkti einróma að félagið skyldi styðja einstakling til að láta reyna á málið fyrir dómi. Í kjölfarið fól félagið lögmönnunum að hefjast handa við málarekstur og valið var mál einstaklings, en viðkomandi einstaklingur tók verðtryggt lán hjá Landsbankanum hf. (sem þá hét raunar NBI hf.) í nóvember 2008.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 29. janúar sl.  Aðalkrafan í málinu lýtur að því að ákvæði lánssamnings  um verðtryggingu, sé óskuldbindandi. Varakrafan í málinu lýtur að því að viðurkennt verði með dómi, að Landsbankanum sé óheimilt að uppreikna mánaðarlega höfuðstól skuldabréfsins, í samræmi við þróun vísitölu neysluverðs. Þá er í lokin einnig krafist viðurkenningar á því að dómurinn ógildi ákvæði í lánasamningnum, þar sem Landsbankinn áskilur sér rétt til að krefjast uppgreiðsluþóknunar, komi til umframgreiðslna af skuldinni á lánstímanum.  Landsbankinn skilaði sinni greinargerð í málinu hinn 19. mars sl.  Í framhaldinu var málinu úthlutað til dómara, sem hefur boðað til nokkurra fyrirtekta í málinu, þar sem aðilum hefur gefist kostur á að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings.

Á dómþingi hinn 5. júní sl. var farið fram á það að héraðsdómur leitaði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins á nánar tilgreindum atriðum, sem lögmenn telja að skipti máli að leitað verði svara við, áður en málinu verður til lykta ráðið.

Er þar um að ræða túlkun á tilskipunum ESB, sem innleiddar hafa verið í íslensk lög.  Málið var flutt munnlega um þennan þátt málsins á dómþingi um mánaðarmótin ágúst/september sl.  Landsbankinn krafðist þess að héraðsdómur leitaði ekki slíks álits frá EFTA dómstólnum og færði rök fyrir þeirri afstöðu sinni.

Á næstunni má reikna með að úrskurður héraðsdóms liggi fyrir um hvort hann heimili að óskað verði eftir ráðgjafandi áliti frá EFTA dómstólnum.  Héraðsdómur hefur nú ákveðið að gefa lögmönnum aðila kost á að tjá sig frekar um ágreininginn, í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar Íslands um að heimila slíka málsmeðferð í máli Gunnars V Engilbertssonar, sbr. dóm réttarins í málinu nr. 489/2013 frá 8. október sl.

Það er mat lögmanna Verkalýðsfélags Akraness sem reka þetta mál að mjög mikilvægt sé að fá þetta rágjafandi álit og verður að teljast umtalsverðar líkur á að Héraðsdómur Reykjavíkur heimili að óskað verði eftir ráðgjafandi áliti frá EFTA dómstólnum í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar í máli Gunnars V Engilbertssonar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image