• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Oct

Einhugur á kjaramálafundi starfsmanna Elkem Ísland

Verksmiðja Elkem á GrundartangaÍ gær voru haldnir tveir fundir með starfsmönnum Elkem Ísland. Sá fyrri hófst kl. 13 og sá síðari kl. 19 en á þessum fundum var kallað eftir hugmyndum starfsmanna að mótun kröfugerðar vegna komandi kjarasamninga Elkem Ísland. Samningurinn mun renna út í lok nóvember. Á fundinum fór formaður yfir hvernig til hefði tekist í síðasta samningi og kom fram í máli hans að laun byrjenda væru í dag tæpum 60.000 kr. hærri á mánuði heldur en fyrir síðustu samninga. Hjá starfsmanni eftir 10 ára starf hefðu launin hækkað um tæpar 75.000 kr. Þessu til viðbótar samdi félagið um verulega eingreiðslu á samningstímanum og nam sú eingreiðsla 450.000 kr. á hvern starfsmann. Sem betur fer varð kaupmáttaraukning hjá starfsmönnum Elkem Ísland sem nam rétt rúmum 8% að teknu tilliti til eingreiðslunnar á samningstímanum.

Það er ljóst að töluverður hugur er í starfsmönnum Elkem vegna komandi kjarasamninga vegna þeirrar staðreyndar að álögur á launafólk gera vart annað en að hækka miskunnarlaust og eina tækifærið sem launafólk hefur til að bæta sinn hag er þegar kjarasamningar eru lausir. Það er ljóst að launafólk á hinum almenna vinnumarkaði nýtur ekki þessa launaskriðs sem viðgengst oft á tíðum því fastlaunasamningar sem gerðir eru kveða einungis á um fastar launahækkanir á samningstímanum og þar af leiðandi skilar það sér ekki í mældu launaskriði.

Það liggur fyrir að Elkem Ísland er útflutningsfyrirtæki og á þeirri forsendu telja menn að svigrúm eigi að vera til staðar í komandi samningum. Menn voru flestir sammála um að gerður verði skammtímasamningur til 12 mánaða þó vissulega hafi heyrst raddir á fundinum sem óskuðu lengri samningstíma. Mótun kröfugerðar mun nú fara fram af fullum þunga enda munu viðræður um nýjan kjarasamning hefjast von bráðar.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image