• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Aug

Formaður félagsins skipaður í sérfræðingahóp um afnám verðtryggingar

Verðtryggingin hefur leikið íslensk heimili illaEins og flestir vita hefur eitt aðalbaráttumál Verkalýðsfélags Akraness síðastliðin 5 ár á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar verið afnám verðtryggingar og að forsendubrestur heimilanna sem varð í kjölfar efnahagshrunsins verði leiðréttur með afgerandi hætti.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur meðal annars lagt fram tillögur og ályktanir bæði á þingum Alþýðusambands Íslands sem og Starfsgreinasambands Íslands um afnám verðtryggingar og leiðréttingu á forsendubresti heimilanna. Þessar tillögur hafa því miður ekki fengið brautargengi og er það skoðun formanns að það sé vegna þess að forysta Alþýðusambands Íslands leggist meðal annars gegn afnámi verðtryggingar.

Það var afar ánægjulegt í ljósi þessarar baráttu Verkalýðsfélags Akraness að formaður félagsins skuli hafa verið skipaður í sérfræðingahóp á vegum forsætisráðuneytisins.. Þessi sérfræðingahópur hefur það verkefni að koma með tillögur er lúta að afnámi verðtryggingar. Formaður Verkalýðsfélags Akraness mun klárlega taka fullan þátt í að styðja og leggja fram tillögur er tengjast afnámi verðtryggingar enda er það eitt brýnasta hagsmunamál íslenskrar alþýðu. Það er mat formanns að það sé gríðarlega mikilvægt að samhliða afnámi verðtryggingar verði sett vaxtaþak á húsnæðislán heimilanna en með slíkri aðgerð yrði komið í veg fyrir að vextir hér myndu rjúka upp úr öllu valdi ef verðbólgan myndi láta á sér kræla á nýjan leik.

Það getur ekki verið eðlilegt að heimilin þurfi að bera alla áhættu af mikilli verðbólgu þó svo að það hafi verið látið viðgangast hér lengi enda liggur fyrir að verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað frá 1. janúar 2008 um allt að 400 milljarða króna. Með öðrum orðum þá hefur verðtryggingin farið eins og skýstrókur um íslensk heimili, sogað allan eignarhluta í burtu og fært hann yfir til fjármálakerfisins. Á þessari forsendu meðal annars fagnar formaður félagsins því innilega að fá að vera hluti af þeim sérfræðingahópi sem hefur það verkefni að leggja fram tilögur um afnám verðtryggingar því það er mikilvægt að fortíðarvandinn verði ekki gerður að framtíðarvanda.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image