• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Ferð eldri félagsmanna - Ferðasaga Hluti hópsins gengur upp að Borgarvirki
29
Aug

Ferð eldri félagsmanna - Ferðasaga

Í gær var komið að hinni árlegu ferð eldri félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness en slíkar ferðir hafa lengi verið fastur liður í starfi félagsins. Eins og undanfarin ár var farið undir dyggri leiðsögn Björns Inga Finsen og að þessu sinni var ferðinni heitið norður á Blönduós með viðkomu á ýmsum áhugaverðum stöðum.

Haldið var af stað frá Akranesi stundvíslega klukkan 8:30 að morgni. Ferðalangarnir voru 100 talsins og skiptust í tvær rútur. Á leiðinni sagði Björn frá ýmsum fróðleiksmolum sem tengdust umhverfinu hverju sinni og þegar kom að Bifröst var farinn lítill hringur um svæðið og umhverfið þar skoðað út um glugga rútunnar.

Áfram var haldið og næst var áð í Staðarskála þar sem gott var að rétta úr sér og sumir fengu sér smávegis hressingu. Eftir stutt stopp var haldið í átt að Bjargi í Miðfirði. Þar fæddist Grettir sterki Ásmundarson skömmu fyrir aldamótin 1000 og þar hefur verið reistur minnisvarði um Ásdísi, móður hans. Þeir sem treystu sér til gengu upp að minnisvarðanum en aðrir létu sér nægja að lesa sér til um sögu staðarins á skilti sem staðsett er niðri við veginn. Víða í nágrenni Bjargs eru sögufrægir staðir sem tengjast ævi Grettis og sagði Björn farþegum frá nokkrum þeirra.

Næst var keyrt að Þingeyrum þar sem merk steinkirkja stendur. Kirkjan var reist á 19. öld og er úr grjóti sem límt er saman úr kalki. Þykir hún bæði fögur að utan og innan en því miður gafst ekki tími til að skoða hana að innan að þessu sinni þar sem komið var að hádegisverði. Hann var snæddur í félagsheimilinu á Blönduósi en það var veitingastaðurinn Potturinn sem sá um matinn. Boðið var upp á dýrindis súpu og fisk.

Áður en Blönduós var yfirgefinn var ekið upp að Blönduóskirkju en hún þykir nokkuð nýstárleg í útliti. Að því loknu var kominn tími til að halda áfram ferðinni og nú var stefnan tekin að Þrístöpum þar sem síðasta aftakan á Íslandi fór fram árið 1830. Hluti hópsins gekk um 200 metra að minningarsteini um aftökuna en aðrir skoðuðu upplýsingaskilti sem staðsett er við veginn.

Frá Þrístöpum lá leiðin að Borgarvirki sem er klettaborg staðsett milli Vesturhóps og Víðidals. Akstursleiðin þangað er falleg og þar er meðal annars útsýni yfir Vesturhópið. Fjölmargir úr hópnum gengu upp að Borgarvirkinu þó að gönguleiðin þangað sé nokkuð erfið yfirferðar á köflum og má með sanni segja að þessi heldri deild Verkalýðsfélags Akraness hafi verið einstaklega létt á fæti. Í nágrenni Borgarvirkis leyndist berjalyng og fóru sumir í berjamó á meðan á stoppinu stóð.

Eftir gönguna að Borgarvirki var ekið áfram sem leið lá að Vatnsenda þar sem Skáld-Rósa bjó. Þar var áð í stutta stund og útsýnisins notið. Þegar hér var komið sögu var farið að styttast í áætlaðan kaffitíma og var ekið meðfram vestanverðu Vesturhópi til baka að þjóðveginum. Þar fóru rúturnar tvær hvor í sína áttina en helmingur hópsins fór í kaffi að Dæli á meðan hinn helmingurinn fór að Gauksmýri. Á báðum stöðum voru snæddar rjómapönnukökur með kaffinu. Rúturnar mættust aftur við afleggjarann að Gauksmýri og urðu samferða sem leið lá til Hvammstanga.

Á Hvammstanga skoðaði hópurinn Selasetrið, safn sem fjallar um lifnaðarhætti sela við Ísland. Þar var að finna ýmsan fróðleik í máli og myndum sem og uppstoppaða seli. Eftir að safnið hafði verið skoðað naut fólk þess að standa úti í logni og blíðu og spjalla saman. Komið var að heimför eftir góðan dag og var ekið frá Hvammstanga til Akraness í einum rykk.

Ferðalagið var vel heppnað í alla staði og vill félagið þakka leiðsögumanninum Birni Inga Finsen, bílstjórunum Atla og Sigurbaldri og síðast en ekki síst öllum þeim félagsmönnum sem komu með í ferðina og gerðu hana eins góða og hún var. Myndir úr ferðinni má sjá hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image