• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Jul

Hækkun iðgjalda í lífeyrissjóði – á kostnað launahækkana?

Fram kom í fréttum í gær að nýtt lífeyriskerfi væri nánast í höfn! Formaður telur þetta stórfréttir fyrir okkur í Verkalýðsfélagi Akraness sem höfum ekki heyrt neitt um að það væri botnlaus vinna í gangi við að búa til nýtt kerfi, en rétt er að geta þess að um 3000 félagsmenn VLFA eru að greiða í lífeyrissjóð og því væri betra að vita um hvað menn eru að tala.

Það veit á gott ef þeir aðilar sem stjórna lífeyriskerfinu eru farnir að átta sig á þeirri grafalvarlegu stöðu sem lífeyriskerfið er í, enda hafa þeir ætíð öskra hátt og skýrt að þetta sé besta kerfi í heimi þegar þeir verja kerfið!

Vandi kerfisins sást glöggt í árlegu yfirliti sem Fjármálaeftirlitið birtir yfir stöðu íslenskra lífeyrissjóða fyrir árið 2012 og það er ætíð afar fróðlegt að skoða þessa skýrslu frá FME um stöðu lífeyriskerfisins. Formaður ítrekar að hann er ekki í nokkrum vafa um að lífeyriskerfið á í umtalsverðum vanda og undrast að ekki skuli vera fjallað meira um vanda kerfisins en raun ber vitni.
Það verður að segjast alveg eins og er að það er þónokkur mótsögn hjá FME þegar þeir segja í skýrslunni að lífeyriskerfið sé „öflugt“ en þó séu veikleikar til staðar.


Formaður vil byrja á því að spyrja hvernig getur lífeyriskerfið verið öflugt þegar tryggingarfræðileg staða sjóðanna er neikvæð uppá 674 milljarða? Já, takið eftir, lífeyriskerfið vantar 674 milljarða til að geta staðið við þær skuldbindingar sem þeir hafa lofað sínum sjóðsfélögum.

Bara hallinn á lífeyrissjóðum ríkis og sveitarfélaga er 574 milljarðar, enda eru þessir sjóðir með bakábyrgð skattgreiðenda, sem þýðir að þessi gríðarlegi halli mun springa framan í andlit íslenskra skattgreiðenda á næstu árum og áratugum. Hallinn hjá lífeyrissjóðum á hinum almenna vinnumarkaði er 100 milljarðar og það þrátt fyrir að búið sé að skerða lífeyrisréttindi m.a. verkafólks, sjómanna og iðnaðarmanna um 130 til 150 milljarða frá hruni. Já takið eftir, launþegar á hinum almenna vinnumarkaði þurfa að horfa upp á skerðingu sem nemur allt að 150 milljörðum á sínum lífeyrisréttindum og þurfa jafnframt að ábyrgjast lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna upp á 574 milljarða. Hvaða sanngirni og réttlæti er fólgið í þessu?

Já, lífeyriselítan segir að þetta sé besta kerfi í heimi. Besta kerfi í heimi hvað? Hvernig getur þetta verið besta lífeyriskerfi í heimi þegar það vantar tæpa 700 milljarða til að standa við skuldbindingar?

Fjármálaeftirlitið veit af þessum gríðarlega vanda enda hafa þeir lagt til að eitthvað verði gert til að stöðva þennan snjóbolta sem gerir ekkert annað en að stækka. Þeir hafa lagt til þrjár leiðir til að mæta þessum gríðarlega halla sjóðanna þ.e.a.s. að iðgjöld verði hækkuð, réttindi skert eða að lífeyrisaldur verði hækkaður. Ég ítreka spurningu mína, hvernig getur þetta verið öflugt kerfi og jafnvel það besta í heimi eins og sumir halda fram, í ljósi þessara ráðlegginga Fjármálaeftirlitsins til að mæta þessum gríðarlega halla?

Um hvað eru þessir aðilar sem eru vinna að nýju kerfi að tala?  Eru þeir að tala um að afnema ríkisábyrgðina af lífeyrisréttindum opinbera starfsmanna? Er verið að tala um að iðgjöldin á hinum almenna vinnumarkaði verði hækkuð úr 12% uppí 15,5%?  Hvernig ætla menn að leysa vanda LSR og sveitafélaga sem eru með halla uppá tæpa 600 milljarða? Málið er að lífeyriskerfið er ekki sjálfbært og nægir að skoða A deildina hjá LSR sem var stofnuð 1998 og átti að vera algerlega sjálfbær en á þessum 15 árum er hallinn hjá A deildinni 61 milljarður. Rétt er að rifja upp að FME gerði kröfu um að iðgjaldið yrði hækkað úr 15,5 í 19,5% hjá LSR til að mæta þessum halla en þessi krafa var gerð 2011.  Rétt er að geta þess að stjórnvöld fóru ekki eftir þessari ábendingu frá FME um að hækka iðgjaldið um 4% sem hefði kostað skattgreiðendur 4 milljarða á ári.

Formaður spyr sig, er launafólk tilbúið til að setja meira fjármuni inní þessa lífeyrishít á meðan kerfið er alls ekki sjálfbært eins og sagan sýnir svo ekki verður um villst? Er launafólk á hinum almenna vinnumarkaði tilbúið að hækka iðgjöldin um 3%?  Formaður dregur í efa að svo sé enda er þar með dregið úr möguleikum á launahækkunum eða hækkun í séreignina með því að nota 3% í samtryggingarkerfi lífeyrissjóðina. Enda kemur það fram í fréttum í dag hjá framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins að hækkun iðgjalda í lífeyrissjóði verði á kostnað launabreytinga. Þetta er stór spurning sem hinn almenni launamaður þarf að spyrja sig að: vill hann hækka samtrygginguna á kostnað launabreytinga?

Formaður telur það algjörlega galið að þeir sem hafa komið lífeyriskerfinu í þær ógöngur sem það er komið í eigi að koma með tillögur um úrbætur.  Hann hefur margoft sagt það áður að það verður að fá óháða aðila sem hafa það hlutverk að rannsaka þetta lífeyriskerfi algerlega og þessir aðilar þurfa að velta hverjum steini við í þeirri rannsókn. Þessi óháða nefnd þarf einnig að koma með tillögur til úrbóta enda er þetta kerfi alls ekki sjálfbært og staðfestir 700 miljarða halli það gjörsamlega. Stjórnvöld verða að hafa kjark og þor til að taka á þessu gríðarlega vandamáli og gera ekki eins og strútarnir sem stinga hausnum í sandinn þegar þeir verða varir við utanaðkomandi hættu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image