• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Apr

Afskipti atvinnurekenda af félagsaðild eru ólögleg

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni vinnur Verkalýðsfélag Akraness nú að stefnu gegn Elkem Ísland vegna verktaka sem starfa inni á athafnasvæði fyrirtækisins allt árið um kring. Fyrirtækið hefur neitað því að gera samkomulag um að starfsmenn umrædds verktakafyrirtækis starfi eftir þeim launakjörum sem gilda á svæðinu.

Það hefur verið stefna Verkalýðsfélags Akraness að verja kjör sinna félagsmanna og bæta þau eins og kostur er og oft á tíðum hefur það kostað umtalsverð átök. Sem dæmi þá átti félagið í töluverðum átökum við stóriðjurnar á Grundartanga í síðustu kjarasamningsgerð sem átti sér stað á árinu 2011 en þá boðaði félagið verkfall hjá Klafa sem er þjónustufyrirtæki sem sér um upp- og útskipanir á Grundartangasvæðinu og er 50% í eigu Elkem Ísland og 50% í eigu Norðuráls. Sem betur fer náðist að afstýra verkfallinu með kjarasamningi, kjarasamningi sem byggðist á sömu launahækkunum og um hafði verið samið fyrir starfsmenn Elkem Ísland. Nú er ljóst að þessi kjarabarátta sem var nokkuð hörð hefur haft umtalsverðar afleiðingar en formaður VLFA vill taka fram að félagið fór ekki fram af neinni óbilgirni í þessum samningum heldur einungis af sanngirni og réttlæti enda var krafa félagsins fyrir starfsmenn Klafa einungis sú að starfsmenn þar myndu njóta sömu kjara og um hafði verið samið fyrir starfsmenn Elkem. Til þess að ná því í gegn þurfti félagið að beita allri þeirri hörku sem það hafði yfir að ráða en nú eins og áður sagði hefur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Sem dæmi hefur formaður nú vitneskju um það að verktakafyrirtækið Snókur, sem gengur í dagleg störf inni á athafnasvæði Elkem, gerði þá kröfu til starfsmanna sinna í september 2011 að þeir segðu sig úr Verkalýðsfélagi Akraness og færðu sig yfir í Stéttarfélag Vesturlands. Einn starfsmaður Snóks neitaði að verða við þeirri beiðni og sagði það ekki koma til greina að færa aðildina yfir í Stéttarfélag Vesturlands enda væri hann mjög ánægður með starfsemi VLFA. Það er skemmst frá því að segja að fljótlega eftir að þessa neitun fékk hann uppsögn, en að sjálfsögðu var uppsögnin sögð byggð á allt öðrum forsendum en þeim að hann hefði neitað að færa stéttarfélagsaðild sína. Nú hefur formaður fengið vitneskju um að verið sé að bjóða út upp- og útskipanir sem starfsmenn Klafa hafa séð um hingað til. Það er skemmst frá því að segja að verktaka sem hafði í hyggju að bjóða í þetta verk varð verulega brugðið þegar hann settist niður með einum af forsvarsmönnum Elkem Ísland til að forvitnast um þessa verkþætti. Á þeim fundi ýjaði forsvarsmaður Elkem sterklega að því við verktakann að þeir starfsmenn sem yrðu ráðnir þyrftu að eiga aðild að Stéttarfélagi Vesturlands en ekki Verkalýðsfélagi Akraness. Þessi verktaki svaraði því þannig að allir sínir starfsmenn væru hjá Verkalýðsfélagi Akraness og hann sæi ekki hvernig hann ætti að geta komið því við. Það er skemmst frá því að segja að eftir að verktakinn hafði látið þessi ummæli falla, heyrðist ekki meira frá forsvarsmönnum Elkem Ísland.

Formaður félagsins er alveg gáttaður á þeirri stefnu sem forsvarsmenn Elkem Ísland virðast hafa tekið upp, stefnu sem er algjört brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og ógnar kjarabaráttu stéttarfélaga illilega. Að fyrirtæki séu farin að krefjast þess að starfsmenn tilheyri ákveðnu stéttarfélagi vegna þess að þar er tekið öðruvísi á kjarabaráttu heldur en í Verkalýðsfélagi Akraness er með ólíkindum og í raun og veru grafalvarlegt mál. Eins og áður sagði er þetta brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur enda er skýrt kveðið á um að atvinnurekendur megi ekki hafa áhrif á stéttarfélagsaðild sinna starfsmanna.

Í umræddum lögum segir m.a. orðrétt: „Atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda er óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með:

a.

uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn,

b.

fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.“

 

Formaður vill að það komi skýrt fram að nánast undantekningarlaust á félagið í góðum samskiptum við atvinnurekendur þótt vissulega hvessi oft hressilega þegar kjaraviðræður eiga sér stað, enda er ekkert óeðlilegt við það þar sem það er hlutverk stéttarfélaga að berjast fyrir bættum hag sinna félagsmanna með kjafti og klóm ef svo ber undir. Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun aldrei láta atvinnurekendur kúga sig með slíkum hótunum að vísa starfsmönnum sínum í annað stéttarfélag þar sem fyrirtækin geta fengið allt aðra og betri meðferð, meðferð sem má líkja við silkihanskameðferð. Nei, VLFA mun aldrei liggja eins og þægur heimilishundur við hlið atvinnurekenda þegar kemur að kjarasamningsgerð og þegar verja á réttindi félagsmanna. Félagið lítur á það sem viðurkenningu þegar atvinnurekendur vilja færa sína félagsmenn frá VLFA til að geta fengið betri meðferð, það sýnir að barátta VLFA fyrir sína félagsmenn er að skila sér. Sem dæmi þá er hægt að upplýsa félagsmenn um að Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð tekið hart á öllum kjarasamningsbrotum og sem dæmi þá hefur félagið innheimt vegna kjarasamningsbrota fyrir sína félagsmenn yfir 200 milljónir á síðustu árum.

Það er morgunljóst að núna fóru forsvarsmenn Elkem Ísland yfir strikið með því að ýja að því við verktaka að þeir þurfi að láta sína starfsmenn vera í öðru stéttarfélagi enda er það eins og áður sagði algjört brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Það er einnig ljóst að Verkalýðsfélag Akraness hefur ekki þurft að hafa áhyggjur af því að félagsmenn vilji ekki vera í VLFA enda fjölgaði í félaginu á milli ára um 295 félagsmenn. Fjölmargir einstaklingar hafa óskað eftir inngöngu í félagið vegna þess að það hefur staðið fast á sínu í allri kjarabaráttu og tekið stöðu með launþegum þessa lands. Það er líka á hreinu að Verkalýðsfélag Akraness hefði ekki áhuga á að taka við félagsmönnum sem skikkaðir hefðu verið til inngöngu af atvinnurekendum þeirra. Það væri ávísun á að stéttarfélagið sé ekki að sinna sínu starfi eins og því ber að gera.

Það er alveg ljóst að þetta mál mun Verkalýðsfélag Akraness ekki láta átölulaust enda er það orðið grafalvarlegt mál ef atvinnurekendur eru farnir að reyna að hafa áhrif á kjarabaráttu stéttarfélaga með því að brjóta lög um stéttarfélög og vinnudeilur eins allt bendir til í þessu máli. Það er mikilvægt fyrir hinn vinnandi mann að sjá til þess að svona hótanir og vinnubrögð fái ekki að líðast á íslenskum vinnumarkaði því ef atvinnurekendum tekst þetta þá er verið að mylja undan starfsemi stéttarfélaga með afgerandi hætti og gera tilraun til að lama alla starfsemi þeirra. Félagið ítrekar það að þessu verður mætt af fullri hörku.

Formaður félagsins hefur haft samband við starfsmannastjóra Elkem Ísland og gert grafalvarlegar athugasemdir við þessi vinnubrögð en það er skemmst frá því að segja að segja starfsmannastjórinn segir að þetta sé ekki rétt.  Formaður vil að það komi skýrt fram að hann tekur ekkert mark á þeim orðum því hann sér ekki nokkra ástæðu fyrir því að umræddur verktaki og starfsmaður séu að segja ósatt í þessu máli enda hafa þeir alls enga hagsmuni af slíku.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image