• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Apr

Hafið þið skömm fyrir

Eins og hér hefur verið fjallað um á heimasíðunni að undanförnu hefur þróun verktakavæðingar Elkem Ísland haft afar neikvæð áhrif, en verktakavæðingin byrjaði árið 2000 með því að stofnuð voru dótturfélög í kringum hluta starfseminnar. Á þessum árum var mötuneytið, ræsting og þvottahús ásamt starfsemi á Grundartangahöfn komið fyrir í dótturfélögunum Klafa og Fangi, en starfsmenn sem þarna störfuðu voru áður í fullu starfi hjá Elkem Ísland.

Á þessum árum snerist baráttan um að tryggja að með þessari úthýsingu myndu þeir starsfmenn sem unnu áðurnefnd störf héldu öllum þeim launakjörum sem þeir höfðu þegar þeir voru starfsmenn Elkem, en í upphafi var Fang og Klafi í 100% eigu Elkem Ísland. Að mörgu leyti tókst að tryggja að launakjör sem starsfmennirnir höfðu áður fylgdu starfsmönnunum yfir, en frá því þessu úthýsing átti sér stað hefur slagurinn við að verja kjör þessa starfsfólks oft  verið blóðugur.

Það er lenska á íslenskum vinnumarkaði að ætíð þegar leita á hagræðingar og sparnaðar þá virðist það fyrsta sem kemur upp í huga stjórnenda að skera niður í ræstingu, mötuneyti og þvottahúsi. Þarna telja stjórnendur að ætíð sé að sækja mikla fjármuni til sparnaðar sem formanni finnst í raun og vera vera grátbroslegt. Það er ugglaust á þessari forsendu að forsvarsmenn Elkem Islands ákváðu þann 1. júlí 2009 að bjóða áðurnefnd störf út og ISS tók yfir rekstur Fangs frá þeim degi. Aftur hófst barátta VLFA við að verja þau kjör sem þessir starfsmenn höfðu áunnið sér og var það m.a. gert með fyrirtækjasamningi við ISS, enda hefur það verið viðurkennt að störf í stóriðjum hafa verið langtum betur borguð heldur en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Núna gerðust hins vegar þeir sorglegu atburðir að ISS kveðst ætla að gera skipulagsbreytingar hvað þessi störf varðar, og þá sér í lagi í mötuneytinu. Þessar breytingar hafa þær skelfilegu afleiðingar að 5 starfsmönnum í mötuneytinu var í gær sagt upp störfum og þar af voru t.a.m. tveir starfsmenn með mikla starfsreynslu, en annar starfsmaðurinn var með 14 ára starfsreynslu í mötuneyti Elkem Ísland en hinn í 11 ár. Hinir þrír voru einnig með áralanga starfsreynslu hjá fyrirtækinu. Það er ömurlegt til þess að vita hvernig þessi verktakavæðing hefur leikið starfsmenn fyrirtækisins grátt á undanförnum árum, og er morgunljóst að félagið mun þurfa að beita öllum sínum kröftum til að verja kjör og atvinnuöryggi þeirra sem starfa á þessu svæði. Formaður vill ekki að ætla forsvarsmönnum ISS að reyna að lækka hjá sér launakostnað með því að segja svona reynslumiklum starfsmönnum upp störfum, en þó er rétt að geta þess að með því að segja þessum starfsmönnum upp þá sparar ISS sér allt að 22% vegna þess að umræddir starfsmenn eru komnir á 10 ára launataxta. En að sjálfsögðu velti maður því fyrir sér hvort þetta sé ein af ástæðunum, einfaldlega vegna þess að það á að ráða strax aftur í störf þeirra sem fengu uppsögn í gær.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill segja við forsvarsmenn Elkem Ísland sem og forsvarsmenn ISS, hafið þið skömm fyrir þessar aðgerðir ykkar. Og það gagnvart fólki sem er búið að eyða sínum bestu starfsárum í þágu þessa fyrirtækis og lagt sig í líma við að þjónusta fyrirtækið eftir sinni bestu getu enda eru hér um úrvalsstarfsmenn að ræða og það geta allir starfsmenn Elkem Íslands sem hafa notið þjónustu þessara kvenna svo sannarlega vitnað um. Svona komum við ekki fram við íslenska launþega.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image