• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Apr

Lífeyrir launafólks á almennum vinnumarkaði er vart verðtryggður

Aðalfundur Festu lífeyrissjóðs var haldinn á Grand hóteli í gær en Festa lífeyrissjóður er sá lífeyrissjóður sem félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness eiga aðild að. Eins og margoft hefur komið fram hefur formaður félagsins gagnrýnt lífeyrissjóðina harðlega vegna stöðu þeirra og margoft hefur komið fram að lífeyrissjóðskerfið í heild sinni tapaði gríðarlegum upphæðum í kjölfar hrunsins eða sem nemur yfir 500 milljörðum króna. Tap sem má rekja til glórulausra fjárfestinga í atvinnulífinu en lífeyrissjóðirnir stigu trylltan dans með útrásinni fyrir hrun.

Það hefur komið fram í skýrslu frá Fjármálaeftirlitinu að lífeyrissjóðskerfið á hinum almenna vinnumarkaði hefur skert réttindi sinna sjóðsfélaga um 130 milljarða frá hruni til ársins 2011. Það er ljóst að ef árið 2012 yrði tekið með þá yrði þessi upphæð jafnvel mun hærri.

Á fundinum í gær kom fram að tryggingafræðileg staða Festu lífeyrissjóðs er neikvæð um 7% og vantar sjóðinn yfir 11 milljarða til að geta staðið við sínar framtíðarskuldbindingar. Á þeirri forsendu lagði stjórn sjóðsins fram tillögu um 4% skerðingu á lífeyrisréttindum sjóðsfélaga innan Festu lífeyrissjóðs. Brúttó skerðing sjóðsins er 15,1% frá hruni að teknu tilliti til þessarar 4% skerðingar sem samþykkt var í gær. Formaður sagðist ekki geta stutt þessar skerðingar þegar hann gerði grein fyrir afstöðu sinni en hann sagði jafnframt að það væri með ólíkindum að varðmenn verðtryggingarinnar héldu því hátt á lofti að lífeyrir launafólks á hinum almenna vinnumarkaði væri verðtryggður og svo kæmi fram á aðalfund sjóðsins 4% skerðing á lífeyrisréttindum sem er nánast sama hækkun og lífeyririnn hefði hækkað um á síðustu 12 mánuðum vegna verðtryggingarinnar.

Það er morgunljóst að lífeyrir á hinum almenna vinnumarkaði er ekki verðtryggður í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að lífeyrissjóðirnir á hinum almenna vinnumarkaði hafa verið að skera réttindi sinna sjóðsfélaga niður eins og enginn sé morgundagurinn enda staðfestir skýrsla FME frá því í fyrra það illilega og er eins og áður sagði búið að skerða réttindi sjóðsfélaga á hinum almenna vinnumarkaði um 130 milljarða og ugglaust er sú tala mun hærri þegar árið 2012 er tekið með.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur margoft fjallað um það að það þarf að endurskoða lífeyrissjóðskerfið í heild sinni, velta við öllum steinum og koma með tillögur til úrbóta í þessu kerfi því þar er alveg ljóst að kerfið er ekki að virka sem skyldi í ljósi áðurnefndra skerðinga sjóðsfélaga.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image