• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Apr

Velferðarráðherra í heimsókn á skrifstofu félagsins

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kom í dag í heimsókn á skrifstofu félagsins og átti gott spjall við formann félagsins þar sem æði margt bar á góma. Eðli málsins samkvæmt ræddu þeir mikið um skuldamál heimilanna og verðtrygginguna sem og um stöðu öryrkja og lífeyrisþega. Þeir voru sammála í mörgu, en greindi á í öðrum málum. Guðbjartur hefur verið nokkuð iðinn við að koma á skrifstofu félagsins á liðnum árum og kann félagið honum bestu þakkir fyrir það. Það er ætíð gott að ræða við Guðbjart og skiptast á skoðunum við hann, enda er hann rólegur, yfirvegaður og hreinskiptinn í öllum sínum samskiptum. 

Formaður nefndi það við Guðbjart að mikilvægt hefði verið að taka strax á skuldavanda heimilanna í kjölfar hrunsins með því að frysta vísitölu neysluverðs, og upplýsti formaður að eitt aðal baráttumál Verkalýðsfélags Akraness hefur verið afnám verðtryggingar og að forsendubrestur heimilanna verði leiðréttur. Nefndi formaður sem dæmi að félagið hefur lagt fram ályktanir og tillögur á þingum ASÍ sem því miður fengu ekki brautargengi.

Það er alveg ljóst að Guðbjartur hefur staðið sig með miklum sóma í sínu starfi sem velferðarráðherra og komið mörgum góðum málum til lykta, þótt alltaf megi gera betur í hinum ýmsu málum. En formaður ítrekaði mikilvægi þess að taka þyrfti á skuldavanda heimilanna og afnema verðtryggingu á húsnæðislán sem væri búin að leika íslensk heimili skelfilega á undanförnum árum. Óskaði formaður Guðbjarti góðs gengis í komandi kosningum, nú þegar aðeins eru þrír dagar í kjördag.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image