• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Mar

Elkem Ísland verður stefnt fyrir félagsdóm

Það er óhætt að segja umtalsverð reiði ríki á meðal starfsmanna Klafa, en það fyrirtæki sér um allar upp- og útskipanir fyrir Norðuráli og Elkem Ísland á Grundartangasvæðinu. Þann 1. mars síðastliðinn var starfsmönnum Klafa tilkynnt að Elkem Ísland hafi sagt upp þjónustusamningi við Klafa, en talað er um að þessi verkþáttur verði boðinn út í lokuðu útboði. Starfsmönnum var jafnframt tilkynnt um að til einhverra uppsagna myndi koma vegna þessa, en rétt er að geta þess að Klafi er í 50% eigu Elkem Ísland og 50% í eigu Norðuráls.

Það er þyngra en tárum taki að Elkem Ísland hefur í síauknum mæli boðið út hina ýmsu þætti í starfseminni sem unnir eru dags daglega á svæðinu, en það er m.a. að mati félagsins algerlega óheimilt. Það er grafalvarlegt mál þegar  launakjör sem ríkja á stóriðjusvæðinu eru gjaldfelld með þessari verktakavæðingu, en í stóriðjunum hafa í gegnum tíðina boðist umtalsvert betri laun en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Það er alveg ljóst að í kjarasamningum, bæði Klafa og Elkem Ísland, er skýrt kveðið á um að samningurinn taki til framleiðslu, viðhalds, skrifstofu og annarra þjónustustarfa í verksmiðju félagsins á Grundartanga, eða starfa sem eru keypt frá utanaðkomandi verktökum enda hafi þeir kaup og kjarasamning við verkalýðsfélögin. Verkalýðsfélag Akraness hefur sterkan grun um að núna sé verktakafyrirtæki að vinna dags daglega inni á svæðinu sem hafi ekki í gildi samning um kaup og kjör, eins og kveðið er á um að til þurfi þegar unnið er inni á athafnasvæði Elkem Ísland. Á þessari forsendu mun félagið stefna Elkem Ísland fyrir brot á kjarasamningi, fyrir að ráða verktaka sem ekki hefur í gildi kjarasamning vegna þeirra starfa sem umræddur verktaki sinnir á svæðinu dags daglega.

Það er sorglegt til þess að vita að margt bendir til þess að verktakar séu að reyna að gjaldfella þau kjör sem gilda á svæðinu, til að ná verkefnum yfir til sín og að sjálfsögðu verður því mætt af fullri hörku. Enda hafa stéttarfélögin þurft að hafa mikið fyrir því að ná þessum kjörum sem eru umtalsvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði og undirboð verktaka í þau störf verða ekki liðin, svo mikið er víst.

Nægir að nefna í þessu samhengi að starfsmenn sem vinna við ræstingar, þvottahús og í mötuneyti hjá Elkem Ísland á Grundartanga og tilheyrðu fyrirtækinu hér á árum áður, og fengu áður launahækkanir til samræmis við aðra starfsmenn Elkem Ísland, hafa núna eftir að fyrirtækið bauð þennan verkþátt út þurft að sæta því að tapa tugum þúsunda á mánuði. Skýringin felst í því að þessir starfsmenn hafa einungis fengið þær launahækkanir sem um hefur verið samið á almennum vinnumarkaði en ekki þær hækkanir sem um hefur verið samið fyrir starfsmenn stóriðja, en þær hækkanir eru langtum meiri en um hefur verið samið á almennum vinnumarkaði og munar eins og áður sagði tugum þúsunda á mánuði. Það er nöturlegt til þess að vita að forsvarsmenn Elkem Ísland hafi boðið út áðurnefnda verkþætti með þessum kjaraskerðingum sem umræddir starfsmenn hafa orðið fyrir, enda er það ætíð þannig að það er ráðist á þá sem síst skyldi þegar kemur að því að leita hagræðingar í rekstri.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir alla sem starfa hjá Elkem Ísland að átta sig á því að þetta er ekki einkamál starfsmanna Klafa eða þeirra sem starfa í mötuneyti fyrirtækisins að fyrirtækið sé nú að verktakavæða hin ýmsu störf. Þetta getur leitt til gjaldfellingar þeirrar áralöngu baráttu um hin ýmsu kjör sem á svæðinu gilda. Á þessari forsendu verða allir sem einn að setja hælana niður og koma í veg fyrir þessi áform, því formaður spyr sig: hvað ætla forsvarsmenn fyrirtækisins að verktakavæða næst? Ofnana? Starfsemina í filter? Eða eitthvað annað? Félagið mun mæta þessu af fullri festu og mun stefna Elkem Ísland fyrir félagsdóm vegna brota á kjarasamningi eins og áður hefur verið getið, enda mun félagið hvergi hvika frá því að verja réttindi starfsmanna sem vinna á svæðinu og verður öllum aðferðum beitt til þess.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image